138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:11]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svarið frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Vitaskuld er þetta snúið mál, hvernig svo sem maður veltir því fyrir sér. Hvar byrjar ormahreinsunin í íslensku viðskiptalífi og hvar endar hún? Ég veit að hv. þm. Jóni Gunnarssyni er, rétt eins og mér og fleiri þingmönnum, mjög umhugað um íslenskt atvinnulíf og að það fari af stað af miklum krafti á komandi missirum. Þá veltir maður fyrir sér hvernig hv. þingmaður sér yfirleitt fyrir sér aðkomu helstu viðskiptamanna, sem komu okkur í þau vandræði sem nú blasa við íslenskri þjóð. Hvernig sér Sjálfstæðisflokkurinn og hv. þingmaður fyrir sér aðkomu alls þessa hóps að íslensku viðskiptalífi? (Forseti hringir.)