138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

brottfall laga nr. 16/1938.

436. mál
[17:54]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um brottfall laga nr. 16/1938, um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt. Nefndarálitið er frá heilbrigðisnefnd og mér er ljúft að segja að heilbrigðisnefnd stóð öll að þessu nefndaráliti og styður afgreiðslu málsins.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá landlækni, Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands. Umsagnirnar sem bárust eru samhljóma og styðja framgang frumvarpsins.

Frumvarpið kveður á um brottfall laga sem heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki til að koma í veg fyrir að það auki kyn sitt. Lögin eru birt í heild í lagasafni með eftirfarandi athugasemd:

„L. 16/1938 eru úr gildi fallin, sbr. 33. gr. laga 25/1975, nema að því er varðar afkynjanir.“

Íslensk stjórnvöld undirrituðu samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 30. mars 2007. Í kjölfar þeirrar undirritunar var skipuð nefnd til að kanna hvort lög og reglugerðir hér á landi uppfylltu kröfur sem lagðar eru á aðildarríki samkvæmt samningnum. Komst sú nefnd m.a. að þeirri niðurstöðu að fella þyrfti framangreind lög úr gildi. Í skýrslunni kom jafnframt fram að Danmörk var fyrsta landið á Norðurlöndum til að setja lög um ófrjósemisaðgerðir árið 1929. Noregur og Svíþjóð fylgdu fast á eftir árið 1934 og Finnland ári seinna. Þessi lög giltu fram á áttunda áratuginn.

Nefndin hefur á fundum sínum fjallað um málið og telur að með frumvarpinu sé stigið tímabært skref í átt að auknum réttindum fatlaðs fólks. Enn fremur bendir nefndin á að með frumvarpi þessu sé komið til móts við kröfu 23. gr. framangreinds samnings Sameinuðu þjóðanna. Þar er kveðið á um skyldu aðildarríkja að gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðum í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum. Í c-lið 1. mgr. greinarinnar segir enn fremur að fatlaðir, þar með talið börn, skuli fá haldið frjósemi sinni til jafns við aðra.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt.

Guðlaugur Þór Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Auður Lilja Erlingsdóttir, Ásbjörn Óttarsson, Valgerður Bjarnadóttir og Skúli Helgason.