138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

Með frumvarpinu er lagt til að lagarammi verði settur um notkun vinnustaðaskírteina og eftirlit aðila vinnumarkaðarins á vinnustöðum. Frumvarpið má rekja til stöðugleikasáttmála stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.

Nefndin fékk til sín fjölda gesta sem málið varðar og hefur lagt til tvær breytingar á frumvarpinu. Nefndinni bárust athugasemdir um að það næði til félaga sem ekki væru í SA. Óeðlilegt væri að lögin tækju til atvinnurekenda sem eiga aðild að öðrum félögum en þeim sem teljast til heildarsamtaka atvinnurekenda samkvæmt lögum. Með slíku yrði vald haft af öðrum félögum til samningsgerðar og hagsmunagæslu. Að auki gæti óeðlilegt vald færst til aðila sem geta ákveðið hvaða stéttir skuli hafa vinnustaðaskírteini. Þeir gætu þar með ákveðið að gildissviðið næði til atvinnugreina, atvinnurekenda og starfsmanna sem ekki eiga aðild að félögum þeirra.

Meiri hlutinn áréttar að frumvarpinu er ekki ætlað að hafa áhrif á hagsmunagæslu eða vald einstakra félaga til samningsgerðar. Þó sé óhjákvæmilegt að lög um þessi mál gildi almennt, svo að atvinnurekendur geti ekki sagt sig úr félagi til að komast undan eftirlitinu. Nauðsynlegt er einnig að hafa vissan sveigjanleika í því, í hvaða atvinnugreinum verður skylt að gefa út vinnustaðaskírteini til að hægt sé að leggja áherslu á þær greinar þar sem grunur leikur á að brotið sé á réttindum starfsfólks og stunduð svört atvinnustarfsemi. Verði þetta frumvarp að lögum mun það gilda um alla atvinnurekendur og starfsmenn, þó með þeirri afmörkun að aðilum vinnumarkaðarins verði gert að semja nánar um það í kjarasamningum til hvaða atvinnugreina og starfa innan þeirra lög þessi taki á hverjum tíma.

Í frumvarpinu er kveðið á um dagsektir ef allir starfsmenn vinnustaðar eru ekki með vinnustaðaskírteini í þeim atvinnugreinum sem kjarasamningar ná til hverju sinni. Kveðið er á um að dagsektirnar verði að hámarki verði 100 þús. kr. á dag. Meiri hlutinn leggur ekki til breytingu á þessu en þó var rætt í þessu samhengi að t.d. í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er kveðið á um að dagsektir skuli vera að hámarki 50 þús. kr. Meiri hlutinn telur að það sé mikilvægt að samræmis sé gætt í ákvæðum laga um dagsektir. Við ákváðum þó, frú forseti, að breyta þessu ekki. Við teljum að aðstæður í stjórnkerfinu þessi missirin séu þannig, að þetta sé ekki það sem brýnast er að samræma. Þetta er vissulega eitthvað sem ætti að huga að, svo ekki sé háð mati hverju sinni hvernig þetta er, heldur sé samræmi í því.

Þá leggur meiri hlutinn áherslu á mikilvægi þess að gætt sé að lögbundnum réttindum starfsmanna, sama hjá hvaða atvinnurekendum þeir starfa. Þá sé brýnt að sporna við svartri atvinnustarfsemi sem leiðir ekki eingöngu til réttindaleysis starfsmanna og lægri skatttekna í ríkissjóð heldur einnig aukinna útgjalda úr ríkissjóði, m.a. í formi atvinnuleysisbóta og bóta úr almannatryggingakerfinu sem eru tekjutengdar. Það er mikilvægt að sátt ríki um velferðarkerfið og að það nýtist á lögmætan hátt og bætur séu greiddar til þeirra sem eiga sannanlegan rétt á þeim.

Ég nefndi áður, frú forseti, að meiri hlutinn leggur til tvær breytingar. Annars vegar leggjum við til að í stað þess að segja í markmiðsgrein frumvarpsins að lögunum sé ætlað að „stuðla að því“ að atvinnurekendur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum, þá verði sagt „að tryggja“. Tryggja eigi að farið sé eftir lögum og reglugerðum.

Hins vegar leggjum við til breytingu á 7. gr. frumvarpsins. Í þeirri grein er lagt til að félags- og tryggingamálaráðuneytið skuli leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða. Samkvæmt stjórnsýslulögum á að kveða upp úrskurði eins fljótt og unnt er. Við teljum eðlilegt að þetta sé í samræmi við stjórnsýslulög og leggjum til að 3. mgr. 7. gr. hljóði: „Félags- og tryggingamálaráðuneytið skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en tveimur mánuðum frá því að ráðuneytinu berst mál til úrskurðar.“

Undir nefndarálitið rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Guðbjartur Hannesson, Ólafur Þór Gunnarsson, Guðmundur Steingrímsson og Anna Margrét Guðjónsdóttir.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.