138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[18:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil leggja til að forseti skoði þá breytingu á framkvæmd slíkra nefndarálita að þeirra þingmanna sé getið sem ekki skrifa undir. Í þessu nefndaráliti kemur fram að undir það skrifa fimm þingmenn en þrír voru fjarverandi. Samanlagt eru þetta því átta þingmenn en í nefndinni sitja níu þingmenn og einn skrifaði ekki undir. Þess er hvergi getið. Þessi einn var ég vegna þess að ég er á móti þessu máli en það kemur hvergi fram. Ég hefði auðvitað getað skrifað sjálfur nefndarálit en ég taldi þetta ekki svo mikið mál.

Ég ætla aðeins að koma því að sem ég var á móti, ég reyndar gat um það við 1. umr. og sú skoðun hefur ekki breyst þrátt fyrir umræður í nefndinni við gesti og lestur umsagna.

Í fyrsta lagi er verið að stofnanavæða verkalýðshreyfinguna. Það er verið að stofnanavæða Samtök atvinnulífsins því þau eru orðin hluti af stjórnsýslunni. Nú er þeim falið að hafa eftirlit með fólki og fyrirtækjum sem hvorki eru félagar í þeim sem atvinnurekendur né sem einstaklingar, verkafólk eða vinnandi fólk. Þeim er gefið vald til að úrskurða hvort einhver ákveðin stétt skuli bera þessi skírteini sem ég fellst á að geti verið nauðsynleg en minna óneitanlega á skírteini sem ætlast var til að vissar stéttir eða þjóðflokkar bæru fyrir löngu síðan.

Hér er líka verið að framselja ríkisvald vegna þess að Samtök atvinnulífsins, sem eru orðin eitthvert opinbert fyrirbæri, eiga að ákveða eitt og annað.

Nú er nýfallinn dómur, frú forseti, hjá Mannréttindadómstóli Evrópu um að iðnaðarmálagjaldið sem ríkið tók að sér að innheimta fyrir ákveðin félagasamtök brjóti mannréttindi. Hér er verið að ganga enn lengra í slíka veru, vissum félögum, vissum samtökum er falið ákveðið vald frá ríkisvaldinu. Þau geta farið með það vald eins og þau vilja og geta t.d. ákveðið að þessi hópur fólks beri svona skírteini og annar ekki, væntanlega eftir einhverjum málefnalegum sjónarmiðum.

Ég er á móti þessu. Ég benti reyndar á miklu einfaldari leið, að ekki sé verið að gefa út skírteini heldur verði á tölvuöld hreinlega tilkynnt til Vinnumálastofnunar að þessi kennitala vinni hjá þessari kennitölu. Ef menn hitta manninn og hann er einhvers staðar að vinna þá er hægt að sannreyna hvort hann sé í vinnu hjá þessu ákveðna fyrirtæki.

Frú forseti. Það leysir í raun ekki þann vanda sem menn glíma við, ekki nema að litlum hluta, því maðurinn gæti verið að vinna þarna allan daginn en sagst vera að vinna hálfan daginn eða hluta úr starfi o.s.frv. Það eru svo margar leiðir sem menn loka ekki með þessu, þeir geta einungis fundið að þessi starfsmaður vinnur hjá þessu fyrirtæki, er með starfsmannaskírteini, vinnustaðaskírteini o.s.frv.

Ég hef þessar athugasemdir við þetta mál og ég var ekki sannfærður í nefndinni um að það væri til bóta. Mér finnst raunverulega menn ganga mjög langt í því að gera þessi félög, sem einu sinni, frú forseti, voru stofnuð til að berjast fyrir kjörum launþega eða standa vörð um hagsmuni atvinnurekenda, að framlengingu á ríkisvaldinu.

Hvað gerist ef einhver vill stofna samtök atvinnurekenda gegn þeim gömlu af því að hann er ósáttur við hvernig þau berjast fyrir hagsmunum sínum og séu orðin svo samtengd ríkisvaldinu og farin að gera alls konar stöðugleikasáttmála sem fyrirtæki hans er ekki sátt við? Eða ef einhverjum launþegum fyndist t.d. verkalýðshreyfingin ekki berjast nægilega vel fyrir kjörum sínum, hún væri að hugsa um eitthvað allt annað, völdin í lífeyrissjóðunum eða að viðhalda einhverjum stöðugleikasáttmála. Hvað gerist ef verkalýðurinn fer að berjast fyrir kjörum sínum upp á nýtt? Hann getur það ekki, vegna þess að ríkið hefur neglt niður þessi opinberu verkalýðsfélög. Opinber verkalýðsfélög sem eru komin með heilmikil völd og hlutverk í stjórnsýslu ríkisins. Ég tel þetta hættulega þróun, frú forseti, eins og í dæminu um lífeyrissjóðina og valdleysi og magnleysi sjóðfélaga sem mæta á fund og leggja fram vantrauststillögu á stjórnina sem er felld. Vita menn af hverjum hún er felld? Hún er felld af þeim mönnum sem kusu stjórnina, einhverjum þröngum hópi. Lýðræðið er farið. Hinn venjulegi sjóðfélagi getur ekki mætt á fund í lífeyrissjóði sínum og samþykkt einhverja ályktun, hann getur það ekki.

Ég held að menn séu komnir út á mjög hættulega braut í þessu og ég vonaðist til að í kjölfar hrunsins mundu menn skoða þessi mál öll, stöðu hinna frjálsu verkalýðsfélaga, stöðu Samtaka atvinnulífsins, stöðu lífeyrissjóðanna o.s.frv. en þetta frumvarp gengur þvert á þær væntingar sem ég hafði um breytingar á íslensku þjóðfélagi.