138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[18:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður beindi ekki til mín fyrirspurn en nefndi að hann sæi ekki samhengið við lýðræði lífeyrissjóðanna sem ég nefndi. Alþingi Íslendinga setti 1974 og svo aftur 1980 lög sem skylda alla launþega til að greiða í lífeyrissjóð viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps hvort sem þeir vildu eða ekki. Þar með var búið að negla niður alla lífeyrissjóðina og allt það kerfi sem þar var uppbyggt, sem felst í því að SA tilnefnir nánast helminginn af öllum stjórnarmönnum almennu lífeyrissjóðanna og stéttarfélögin með því lýðræði sem þar er innan borðs tilnefna hinn helming fulltrúanna. Sjóðfélagar koma ekki að þessu. Margir sjóðfélagar eru ekki einu sinni í þeim stéttarfélögum sem standa að viðkomandi lífeyrissjóðum og hafa ekki nokkur tæki til að koma að því að kjósa stjórn. Þannig er nú lýðræðið í því. Mannabreytingar eða skortur á mannabreytingum bæði í verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðunum segir mér að ekki er mikið og virkt lýðræði í þessum stofnunum. Það er fréttnæmt ef kosið er til formanns VR eða í stjórn VR, það er fréttnæmt og þurfti væntanlega hrun til.

Ég segi að samhengi sé þarna á milli vegna þess að verið er að negla niður ákveðin réttindi SA og ASÍ, sem er fulltrúi flestra stéttarfélaga í landinu, að þau séu framlengdur armur ríkisvaldsins. Þannig að ekki verða lengur stofnuð frjáls stéttarfélög til að berjast við þau ósköp sem ríkið er að negla niður.