138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[18:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Staða lífeyrissjóðanna og stjórnarhættir þeirra eru mjög mikið til umræðu þessi dægrin, enda er full þörf á því. Það kerfi er þannig uppbyggt að fulltrúar eru kosnir, það er fulltrúalýðræði — frú forseti, þú verður að afsaka hvað mér vefst tunga um tönn. Fulltrúar eru kjörnir sem síðan kjósa aðra fulltrúa til að setjast í stjórnir lífeyrissjóðanna. Þetta er nákvæmlega það fyrirkomulag sem við höfum hér á hinu háa Alþingi. Við erum kjörnir fulltrúar almennings og kjósenda í þessu landi og síðan veljum við fólk í alls kyns nefndir og ráð. Við höfum reynt að hverfa frá þessu í einhverjum mæli en þó tel ég mjög mikilvægt að við höfum áfram pólitíska stjórn á ákveðnum stofnunum í þessu landi því stjórnmál eru til þess að ná fram lífssýn og áherslum sem ekki verða tekin frá okkur.

Margt brast í kerfi okkar í hruninu og lífeyrissjóðirnir eru þar til endurskoðunar tel ég. Hv. þm. Margrét Pétursdóttir lagði til í dag að fram færi sérstök rannsókn á lífeyrissjóðunum og framferði þeirra. Ég held að mjög mikil og brýn ástæða sé til því lífeyriskerfið er eitt af sterku stoðunum í íslensku efnahagskerfi. Ef almenningur hættir að treysta þeim sem eiga að fara með fé sem við greiðum af laununum okkar mun molna út úr þessu mikilvæga samtryggingarkerfi okkar, sem er eitt það besta í heiminum þótt á því séu margir vankantar. Það tek ég undir með hv. þingmanni.