138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

gjaldþrotaskipti og fyrning kröfuréttinda.

449. mál
[18:45]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina. Hvað varðar fyrirmyndina kviknuðu hugmyndir að þessu frumvarpi þegar ég heyrði útvarpsþátt um svokölluðu fimm ára regluna sem er viðhöfð í Bandaríkjunum. Þar fyrnast kröfur á fimm árum og það er sem sagt ekki hægt að slíta fyrningunni.

Við undirbúning að þessu frumvarpi lét ég kanna hvernig þessu væri háttað á hinum Norðurlöndunum og þar er löggjöfin svipuð gildandi löggjöf hér á landi þannig að enn og aftur er hér verið að leggja til róttæka breytingu á löggjöf okkar sem er ekki alveg í samræmi við löggjöfina á Norðurlöndunum enda held ég að fjármálakreppan í þeim löndum hafi ekki valdið jafnmiklum erfiðleikum og hér á landi, vandræði heimila hafi ekki verið álíka mikil þar og þau eru og munu verða hér á landi, sem má m.a. rekja til þess að flestöll fasteignalán eru verðtryggð.

Þetta er sem sagt róttæk breyting og ég vona að lögfræðistéttin hér á landi sé tilbúin til þess að bregðast við óvenjulegum aðstæðum með því að opna fyrir tillögur sem koma annars staðar frá og frá landi hefur farið í gegnum mikla bankakreppu.