138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:02]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Í vikunni staðfesti Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, að seðlabankastjóra hefði verið heitið því þegar hann var ráðinn til starfa að hann héldi óskertum launum þrátt fyrir úrskurð kjararáðs. Til að efna þau fyrirheit hefði hún lagt fram tillögu í bankaráðinu um að laun seðlabankastjóra yrðu hækkuð um 400 þús. kr. á mánuði. Í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær harðneitaði hæstv. forsætisráðherra því ítrekað að nokkur fyrirheit um launahækkun til seðlabankastjóra hefðu verið gefin af henni sjálfri eða forsætisráðuneytinu.

„Það er ekki á mínu færi og ég vissi ekkert um það að hann mundi fá einhver önnur laun en kjararáð ákvæði í þessu efni. Ég hef auðvitað haft samband við mitt starfsfólk í ráðuneytinu og þar kannast enginn við að hafa gefið slíkt loforð.“

Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra m.a. í gær.

Í viðtali við Morgunblaðið í dag upplýsir Ragnar Árnason, fulltrúi í bankaráði Seðlabankans, að formaður bankaráðsins hefði sagt ráðinu að tillaga um launahækkun seðlabankastjóra hefði verið lögð fram að höfðu samráði við forsætisráðuneytið og hún hefði einnig rætt málið við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra.

Virðulegi forseti. Það virðist blasa við að í þessu máli hafi blekkingum verið beitt á æðstu stöðum og því miður hafi verið sagt ósatt um staðreyndir þess. Annaðhvort hefur formaður bankaráðsins beitt bankaráðið blekkingum þegar tillagan var lögð fram, hún sjálf verið beitt blekkingum eða hæstv. forsætisráðherra hefur ekki sagt þinginu sannleikann um aðkomu forsætisráðuneytisins að þeim loforðum sem gefin voru. Hvort tveggja er auðvitað grafalvarlegt. Sé það rétt að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki komið hreint fram gagnvart þinginu og ekki sagt sannleikann í gær um aðkomu sína eða ráðuneytisins að launahækkunum seðlabankastjóra þarf ráðherrann augljóslega að íhuga stöðu sína.

Það stendur ekki síður upp á samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, Vinstri græna, sem ber ábyrgð á hæstv. forsætisráðherra, að gera það upp við sig hvort hann styðji (Forseti hringir.) þessi vinnubrögð, ætli að bera ábyrgð á þeim og hvort hæstv. forsætisráðherra njóti enn þá trausts í ljósi þess sem fram hefur komið.