138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:07]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af stöðu heimilanna í landinu og ekki síst þeirra heimila sem búa við atvinnuleysi. Í dag eru um 16 þúsund manns á atvinnuleysisskrá og mest er atvinnuleysi meðal þeirra sem eru ungir eða á aldrinum 16–24 ára. Mun meira atvinnuleysi er meðal karla en kvenna. Fjölmörg úrræði eru í gangi fyrir atvinnulausa sem eflaust hafa hjálpað einhverjum að komast aftur inn á vinnumarkaðinn. Vandamálið við flest þessi úrræði er að þau einblína um of á að halda einstaklingnum í atvinnuleit en ekki að tryggja nægilega eftirspurn eftir vinnuafli.

Frú forseti. Það þarf að leita leiða til að örva eftirspurn í hagkerfinu ef okkur á að takast að koma sem flestum aftur í vinnu. Eftirspurnina í hagkerfinu örvum við með því að gera fjárfestingar í atvinnulífinu hagstæðari en að geyma peninga inn á bók, með því að styrkja krónuna enn frekar og með því að leiðrétta skuldir heimila og fyrirtækja. Mörg fyrirtæki og heimili eru hætt að ná endum saman vegna mikilla verðhækkana og aukinnar skuldsetningar í kjölfar bankahrunsins. Á sama tíma finnst þeim sem eiga fjármagn best að safna því inn á bankabækur sem eru að fullu ríkistryggðar.

Frú forseti. Einkaframtakið hefur brugðist og stjórnvöld þurfa með markvissum hætti að skapa bætt skilyrði fyrir atvinnusköpun og nýsköpun. Í kreppu þurfa stjórnvöld að sýna þor og örva eftirspurnina í hagkerfinu.