138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir áhyggjur hv. þm. Lilju Mósesdóttur af atvinnuleysinu en það komu líka fram tölur um daginn um að 28 þúsund störf hefðu tapast á Íslandi. Við hljótum að velta því fyrir okkur þegar Vinstri græn koma upp og tala um að einkaframtakið hafi hrunið og hitt og þetta, og þá hljótum við að spyrja Vinstri græn um leið: Hvernig á að bregðast við? Hvernig á að byggja upp? Er það ríkið sem á að stuðla að allri atvinnuuppbyggingu og með hvaða hætti? Hvernig eigum við að gera þetta? Að sjálfsögðu eiga opinberir aðilar að bregðast við í kreppu, auka framkvæmdir og slíkt, en það má ekki tala þannig að allt sem heitir einkaframtak sé eitthvað slæmt.

Ég er ekki talsmaður óhefts einkaframtaks, frjálshyggju eða slíks, ég vil að þarna sé millivegur, meðalvegur fetaður. En það er stórhættulegt ef menn eiga að standa í ræðustól Alþingis og tala þannig að það sé best að skattleggja allt sem hægt er að skattleggja og koma okkur þannig út úr kreppunni.

Frú forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Sigurðar K. Kristjánssonar áðan varðandi orð hæstv. forsætisráðherra í þingsal. Það er nauðsynlegt að forsætisráðherra, forsætisráðuneytið og efnahags- og viðskiptaráðherra standi þinginu skil á þeim fullyrðingum sem komið hafa fram í fjölmiðlum um að seðlabankastjóra hafi verið lofað hærri launum en hann er á. Það virðist vera þannig, eins og kemur fram í Morgunblaðinu í dag, að búið sé að ræða þetta fyrir mörgum fundum í stjórn Seðlabankans og þá hafi þessi tillaga verið kynnt. Svona lagað kemur ekki af sjálfu sér, það dettur ekki af himnum ofan. Forsætisráðherra skuldar þinginu, og úr því að menn nefna gjarnan þjóðina líka skýringar á orðum sínum. Ég velti því fyrir mér: Er forsætisráðherra sætt? Talað er um ný vinnubrögð, (Forseti hringir.) talað er um að draga menn fyrir dóm og annað, við verðum að fara að spyrja að því hvort þeim ráðherrum sem nú sitja enn og voru í hrunstjórninni sé sætt hér.