138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:12]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Sem sá sem situr hér með minnstu þingreynsluna fær samt ekki betur séð en að hæstv. ríkisstjórn Íslands líti á þessa góðu samkomu með þeim hætti að um eins konar sjálfsafgreiðslustofnun sé að ræða eða sjálfsala í þjónustu framkvæmdarvaldsins. Það vekur furðu mína að hæstv. forseti skuli ekki spyrna við fótum, a.m.k. verður ekki séð að svo sé.

Fyrir nokkrum dögum ræddum við í þingsal hvernig hæstv. ráðherrar komu saman og tóku ákvörðun um 350 millj. kr. aukaríkisútgjöld án þess að hafa samráð við Alþingi. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því hvernig framkvæmdarvaldið er farið að nota Alþingi sem eins konar skammbyssu sem sett er á haus einstaklinga og fyrirtækja sem ekki fara eftir því sem yfirvaldið boðar hverju sinni.

Í síðustu viku var tilkynnt að ríkisstjórnin hefði samþykkt frumvarp um breytingu á erlendum bílalánum einstaklinga. Hæstv. félagsmálaráðherra gat ekki beðið með að tilkynna fjölmiðlum þessar góðu fréttir, enda eignaleigufyrirtæki ekki með þeim vinsælustu á landinu.

Í fréttum ríkissjónvarpsins síðastliðinn föstudag sagði m.a., með leyfi forseta:

„Félagsmálaráðherra segir að samningaumleitanir við eignaleigufyrirtækin hafi ekki gengið nógu vel. Hann hefur þó ekki gefið upp vonina um að samningar náist. Verði það raunin verður frumvarpið dregið til baka.“

Hæstv. félagsmálaráðherra lítur þannig á Alþingi sem viljalaust verkfæri sem hægt er að nota í hótunum til að ná því fram sem hann hefur fyrir löngu lofað en ekki staðið við. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég spyr: Hvað ætlar hæstv. forseti að gera í svona málum?