138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:14]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir svaraði því úr þessum stóli í gær að hún hefði ekki gefið nein loforð um sérstakar launahækkanir eða ívilnanir til handa nýjum seðlabankastjóra við ráðningu hans. Hæstv. forsætisráðherra svaraði í þrígang. Svar hennar liggur fyrir.

Ég get hins vegar tekið undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að það er eitthvað málum blandað hér og ég tel að hv. formaður bankaráðs Seðlabankans skuldi ráðherranum og okkur í Samfylkingunni, vegna þess að það vorum við sem skipuðum hana í bankaráð Seðlabankans, skýringu á orðum sínum og skýringu á því að fara undan í flæmingi þegar spurt er: Hvað veldur? Hver bað? Þetta þarf að skýra. Ég tek undir með hv. þingmanni um það. Þessari spurningu er ósvarað og mér líkar það ekki að flokksmaður í mínum flokki, Samfylkingunni, dylgi um hv. formann Samfylkingarinnar, forsætisráðherra, og annað sem hefur orðið þar á milli í samskiptum þeirra. Ég veit að hér er djúpt í árinni tekið en málið er líka grafalvarlegt vegna þess að það er þannig að stjórnmálaflokkarnir skipa trúnaðarmenn sína til starfa í bankaráði Seðlabankans og það þarf að ríkja þar trúnaður á milli manna.

Hæstv. forsætisráðherra svaraði skýrt þrem sinnum hér í gær um þetta mál. Orð hennar standa en aðrir hafa ekki talað jafnskýrt í þessu máli.