138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:16]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að taka þátt í umræðunni sem ég hóf um tillögur um launahækkanir til handa seðlabankastjóra Íslands. Ég er sammála hv. þingmanni að þetta mál er grafalvarlegt. Það er ljóst að einhverjum blekkingum hefur verið beitt og sannleikur málsins hefur ekki komið fram.

Það liggur fyrir að hæstv. forsætisráðherra sagðist í gær ekkert hafa vitað um það að áform væru uppi um að seðlabankastjóri fengi önnur laun en kjararáð hefur ákvarðað um. Hún lýsti því líka yfir að hún hefði haft samband við starfsfólk sitt í ráðuneytunum og þar kannaðist enginn við að hafa gefið slík loforð. En ég minni á að Ragnar Árnason, prófessor og bankaráðsmaður í Seðlabankanum, lýsir því í Morgunblaðinu í dag að þegar formaður bankaráðsins lagði tillöguna fram hefði það verið gert að höfðu samráði við forsætisráðuneytið og hún hefði einnig rætt við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra.

Það þarf að upplýsa það fyrir þinginu hver sannleikurinn í málinu er og ég heyri það á hv. þingmanni að hún telur að formaður bankaráðs Seðlabankans skuldi skýringar. Það er ljóst að hv. þingmaður telur að Lára V. Júlíusdóttir hafi ekki gert nægilega grein fyrir því hvers vegna hún gerði með þessum hætti grein fyrir tillögu sinni á fundi bankaráðs. Ég hygg að það sé óumdeilt að þar kom fram að formaðurinn hefði haft samráð við forsætisráðherra. (Forseti hringir.) Við þurfum að fá á þessu skýringar og það þarf að fá úr þessu skorið (Forseti hringir.) í eitt skipti fyrir öll gagnvart þinginu og ekki síður þjóðinni áður en menn taka ákvarðanir um framhaldið.