138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla kannski byrja á því að taka undir að það er mjög mikilvægt að það mál sem við ræddum í sambandi við laun seðlabankastjórans og hver tók hvaða ákvörðun verði skýrt og hvaðan þær ákvarðanir eða hugmyndir eru sprottnar, því að það getur ekki verið þannig að stjórnkerfið ráði sér sjálft. Það hlýtur einhver að bera ábyrgð á ákvarðanatökunni.

Ég ætlaði reyndar ekki að ræða það mál, ég ætlaði aðeins að taka upp málefni sem vakir mjög sterkt yfir okkur í Suðurkjördæmi og íbúum þar að eldgos sem við höfum reyndar rætt hér og afleiðingar þess hafa komið til tals í tví- eða þrígang í þinginu. Mig langaði aðeins að halda áfram með umræðu þar að lútandi þar sem því miður virðist vera svo að gosið haldi áfram og ekki ljóst hvenær því lýkur eða hvaða afleiðingar það muni hafa. Hér hafa verið mjög sterkar og góðar yfirlýsingar frá ríkisstjórninni um fjárhagslegan stuðning og að allt verði bætt. Á sama tíma vitum við öll að bæði Bjargráðasjóður og eins fyrirhleðslusjóður eru tæmdir sjóðir sem hafa enga fjármuni. Aftur á móti eru nægilegir fjármunir í Viðlagatryggingu og ég held að ég muni það rétt að þegar tjón varð á skíðasvæði Ísfirðinga var lögum um Viðlagatryggingu breytt þannig að Viðlagatrygging gæti bætt það tjón. Ég hefði haldið að það væri skynsamlegt að við mundum skoða það í þinginu að breyta lögum um Viðlagatryggingu þannig að allt það tjón sem þarna verður vegna eldgossins verði bætt af Viðlagatryggingu. Þar er bæði þekking — við þekkjum það mjög vel af Suðurlandsskjálftanum að þá kom Viðlagatrygging inn — og þar er kerfi og matsmenn sem kunna allt til verka til að fara og meta þetta. Ég held að það væri skynsamlegt að við skoðuðum það hvort ekki ætti að breyta lögum, því að sjóðir eins og Bjargráðasjóður, fyrirhleðslusjóður og landbótasjóður Landgræðslunnar sem eru tómir koma ekki að þessu máli og geta það ekki, og við séum ekki að leita að peningum af því að við vitum að það er til takmarkað af þeim (Forseti hringir.) en það eru nægilegir fjármunir í Viðlagatryggingu. Ég tel að við ættum að skoða það alvarlega að breyta lögum um Viðlagatryggingu til að tryggja að þeir fjármunir séu til sem þurfi til endurbótanna.