138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að vekja máls á málum austan heiða á eldgosasvæðinu. Ég tel mjög mikilvægt að staðið verði við þær yfirlýsingar að bætt verði það tjón sem orðið hefur og mikilvægast af öllu er að ráðast nú í viðgerðir á þeim varnargörðum og varnargarðakerfi sem heldur bæði Markarfljótinu og Svaðbælisánni í skefjum. Þar koma að bæði Landgræðslan og eins Vegagerðin og ég hef fullvissu fyrir því að ríkisstjórnin er að beita sér fyrir því að því verði svarað hver ætli að borga. Ég veit að heimamönnum er algerlega sama hver borgar þessar framkvæmdir, bara að ráðist verði í þær sem fyrst.

En þá að öðru máli og ekki síður mikilvægu en það er umræðan um launakjör seðlabankastjóra. Það hefur verið upplýst að menn, og greinilega úr mörgum flokkum, vilja að þetta mál sé upplýst. Þar sem ég veit að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur kvatt sér hljóðs að nýju langar mig að beina þeirri fyrirspurn til hv. þingmanns: Á hvaða vettvangi verður þetta upplýst? Hvaða vinna er í gangi við að koma réttum upplýsingum á framfæri? Verður það ekki örugglega gert á þinginu? Ég veit að það kom fram í máli hv. þingmanns að Lára V. Júlíusdóttir er fulltrúi Samfylkingarinnar í bankastjórninni en það eru vonandi ekki fyrirætlanir um það að upplýsa eingöngu þetta mál á vettvangi Samfylkingarinnar. Þingið þarf að fá þessi svör, sérstaklega í ljósi umræðunnar sem hefur farið fram hér í vikunni. Það er heila málið. Það eru allir sammála um að réttar upplýsingar þurfa að koma fram. Þetta er grafalvarlegt mál. Verður það ekki örugglega gert á þinginu?