138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:23]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ekki verður hjá því komist að hæstv. forsætisráðherra skýri þinginu almennilega frá því hvernig sú ákvörðun var tekin að hækka laun seðlabankastjóra um 400 þús. kr. eins og formaður bankaráðs bankans lagði til á mörgum fundum bankaráðs. Það gengur ekki að benda einungis á formann bankaráðsins og láta að því liggja að þar sé ekki farið rétt með þegar fyrir liggur að á fleirum en einum fundi upplýsti formaður bankaráðs að forsætisráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti væri upplýst um þessa ákvörðun og hvernig með þetta mál skuli farið.

Það er viðtal við formann bankaráðs í Fréttablaðinu í dag og þar er hún spurð að því hvernig standi á því að forsætisráðherra neiti hvað eftir annað að hafa ákveðið þessi launakjör. Lára V. Júlíusdóttir segir, með leyfi forseta:

„Ég kýs að skilja það þannig að ekki sé vilji til að fylgja þeim fyrirheitum eftir í ljósi ástandsins“, þ.e. að hæstv. forsætisráðherra hafi hreinlega skipt um skoðun, að hún vilji ekki nú uppfylla þau fyrirheit sem gefin voru þegar seðlabankastjóri var skipaður. Hér stendur þá orð gegn orði. Hæstv. forsætisráðherra þarf að svara þinginu og hún þarf að standa frammi fyrir þinginu og upplýsa hvernig þetta mál er vaxið. Alþingi Íslendinga verður að fá úr því skorið hvernig þessum hlutum er háttað og það er algerlega út í hött fyrir hæstv. forsætisráðherra að svara með þeim hætti að það þurfi ekki að gefa frekari skýringar og enn þá meira er það út í hött að ætla að fara að skipa einhverjar nefndir til að útskýra hvernig þessum málum er háttað. Nefndaskipanir ríkisstjórnarinnar eru komnar út í tóma vitleysu. Þingið verður að fá viðeigandi svör og hæstv. forsætisráðherra verður að svara þessum spurningum strax við fyrsta tækifæri.