138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur um að það er greinilegt að ekki er búið að svara öllum spurningum um þetta mál. Þó að ég sé þeirrar skoðunar að þetta sé kannski ekki stærsta málið sem við ættum að vera að fjalla um í dag og vona svo sannarlega að það verði það ekki, eru hins vegar ýmsar spurningar sem eru uppi: Ætlum við að hækka laun seðlabankastjóra eða ætlum við að lækka þau? Hann virtist sjálfur ekki alveg hafa það á hreinu. Síðan er stóra spurningin sem við bíðum öll spennt eftir því að fá svar við: Hver tók ákvörðun um að hækka eða lækka launin? Ef við gætum klárað þetta mál og fengið svör við þessum spurningum gætum við kannski farið að sinna öðrum verkefnum. Eins og hv. þm. Óli Björn Kárason kom að eru stórmál til meðferðar í þinginu og ég fagna því að hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp sitt þar sem ætlunin er að fara í og lækka gengistryggðu lánin sem fara nú mjög illa með allt að 25% heimila í landinu. Þeir einstaklingar sem búa á þessum heimilum eru búnir að reyna að semja við fjármögnunarfyrirtækin, eru búnir að reyna að útskýra fyrir þeim að þeir geti ekki staðið undir þessari greiðslubyrði en ekkert hefur gengið.

Hæstv. ráðherra hefur líka ítrekað reynt að komast að samkomulagi við fjármögnunarfyrirtækin og það hefur ekki gengið. Ef það þýðir að verið sé að nota Alþingi Íslendinga eins og hlaðið vopn verður að hafa það. (Gripið fram í.) En ég vona svo sannarlega að við klárum þetta mál og við sýnum að við erum tilbúin til að skjóta ef þess þarf.