138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

vestnorrænt tilraunaverkefni á sviði fjarkennslu á háskólastigi.

315. mál
[13:08]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga kemur einnig frá formanni Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að styðja við tilraunaverkefni vestnorrænna háskóla á sviði fjarkennslu. Markmiðið með verkefninu verði að leggja grunn að formlegu framtíðarsamstarfi Vestur-Norðurlanda á sviði fjarkennslu á háskólastigi.

Undir nefndarálitið skrifa allir nefndarmenn í utanríkismálanefnd sem viðstaddir voru og voru þeir einhuga um þetta álit.

Það kom fram í umræðum í nefndinni að nauðsynlegt væri fyrir okkur Íslendinga að styðja við starfsemi Vestnorræna ráðsins og þá samvinnu sem er á þess vegum. Á hinn bóginn væri ljóst að við búum við miklar efnahagsþrengingar og þess vegna leggur nefndin til að gerð verði breyting á þingsályktunartillögunni þannig að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina að kanna grundvöll þess að styðja við tilraunaverkefni vestnorrænna háskóla í fjarkennslu.