138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

532. mál
[14:12]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að þetta mál er komið fram. Bændasamtök Íslands hafa um langt skeið verið talsmenn þess að sú breyting sem við ræðum hér yrði gerð á fánalögunum. Þegar hæstv. forsætisráðherra bar inn í þingið skrána yfir þau mál sem ættu að fara í gegn á þessu þingi var þetta eitt þeirra. Hins vegar sást lítið til málsins í allan vetur þannig að sú er hér stendur bar upp fyrirspurn við hæstv. forsætisráðherra til að inna eftir því hvort þetta mál kæmi ekki bráðum. Hæstv. forsætisráðherra brást við og sagði í svari sínu að málið færi að koma. Nú er það komið og ég fagna því alveg sérstaklega.

Málið er svolítið prinsippmál en ekki mjög flókið, aðeins tvær greinar. Það felst í því að við erum að opna lögin gagnvart því að hægt sé að nota þjóðfánann í vörumerki á vöru sem er til sölu. Hún verður auðvitað að vera íslensk að uppruna og það má ekki sýna fánanum óvirðingu. Það verður t.d. hægt að auglýsa íslenskar landbúnaðarvörur með íslenska fánanum. Mér finnst þetta vera svolítið neytendamál og ég held að það sé mjög til bóta af því að þá geta þeir sem versla í búðum landsins séð í fljótheitum hvað er íslenskt og hvað ekki, a.m.k. hvað er íslenskt af því að þá er fáninn á vörunni. Ég er mjög ánægð með þetta mál og vona að það klárist í vor eða á septemberþinginu. Bændasamtökin hafa rætt þetta margítrekað, m.a. á síðasta búnaðarþingi. Bændur landsins bíða eftir að þetta mál fari í gegn miðað við þær upplýsingar sem ég hef þaðan.

Hins vegar leiðir þetta mál hugann að frekari breytingum á fánalögunum. Ég kasta því hér fram að hugsanlega ætti að gera fleiri breytingar. Sú er hér stendur hefur velt fyrir sér annarri breytingu sem er ekki komin í frumvarpsform eða neitt slíkt en það má vera að ég flytji slíkt mál. Það er um að opna fyrir notkun fánans allan sólarhringinn á sumrin. Núna þarf að taka fánann niður á kvöldin og menn telja að honum sé ekki sýnd virðing með því að hann hangi uppi á nóttunni en ég hef velt fyrir mér hvort ekki megi aðeins mýkja upp lögin þannig að menn geti dregið fána að húni og haft hann uppi allan sólarhringinn á sumrin frá einhverjum tilteknum degi þegar það er birta í landinu meira og minna, t.d. 1. júní til 1. september eða 1. ágúst, eitthvað slíkt. Þann tíma gætu menn haft fánann uppi allan sólarhringinn. Þá er ég að meina alvöruþjóðfánann, ekki veifurnar (Gripið fram í.) heldur okkar hefðbundna fána.

Sjálfsagt eru mjög skiptar skoðanir á málinu, margir á móti því að fáninn fengi að hanga uppi á nóttunni á sumrin þó að það væri birta en ég held líka að margir séu því fylgjandi. Ég nefni t.d. sumarbústaðaeigendur sem vilja kannski flagga þegar þeir eru í bústaðnum en ekki taka fánann alltaf niður á kvöldin. Það má vel vera að við þyrftum að ræða þetta síðar varðandi frekari breytingar á fánalöggjöfinni.

Hæstv. forsætisráðherra talaði um erfiðleika að mörgu leyti í samfélaginu. Það er rétt. Ég held hins vegar að með því að breyta fánalögum gætu náðst mjög mikil sóknarfæri fyrir bændur landsins. Varan gæti selst betur. Núna eru sérstakir erfiðleikar hjá bændum á Suðurlandi vegna gossins í Eyjafjallajökli og ég held að þetta mál gæti hjálpað þeim eins og öðrum bændum í landinu.

Menn hafa líka talað um mikla erfiðleika í ferðaþjónustunni. Það er rétt, það eru tímabundnir erfiðleikar í ferðaþjónustunni út af gosinu. Sú sem hér stendur heldur samt að til lengri tíma litið sé eldgosið ein besta auglýsing sem Ísland hefur fengið um langan tíma fyrir ferðaþjónustuna. Ísland er á vörum mjög margra manna og þegar yfir þetta gos fennir stendur eftir í huganum að það er spennandi eyja norður í hafi, hvernig væri að fara þangað og kíkja á hvernig fólk hefur það þar. Þó að erfiðleikarnir séu tímabundnir held ég að sóknarfærin til lengri tíma séu alveg gríðarleg.

Þetta mál er sem sagt sóknarfæri fyrir bændur landsins og fyrir neytendur þannig að ég styð það heils hugar og vona að það fari fram hið fyrsta eftir skoðun í nefnd.