138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

532. mál
[14:27]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp til að fagna framlagningu þessa frumvarps. Þjóðfáni okkar Íslendinga er okkur að sjálfsögðu mikils virði en notkun hans samkvæmt reglum og lögum hefur verið til vitnis um — ja, frú forseti, ég vil leyfa mér að nota orðin argasta afturhald því að á þeim sviðum höfum við verið talsvert aftar öðrum þjóðum hvað varðar eðlilega notkun á þjóðfána. Þegar maður horfir til þeirra landa sem við berum okkur oftast saman við, Evrópulandanna á meginlandi Evrópu, nota þau sinn fána í mun ríkari mæli en Íslendingar hafa gert og á það ekki síst við um vörur sem eiga uppruna sinn í þessum löndum. En ég minnist líka þess hversu aðrar Evrópuþjóðir nota fána sinn ríkulega við hús sín og byggingar til að minna á uppruna sinn og þjóðerni.

Það ber sérstaklega að fagna þeim hluta þessa frumvarps sem lýtur að almennri notkun fánans við vörumerkingar. Heimildin þar er orðin almennari en hún var áður. Fyrrum var þetta bundið við gæði og það lá eiginlega í hlutarins eðli að ríkisvaldið þyrfti að meta hverju sinni þá vöru sem gæti verið fánamerkt en samkvæmt þessu frumvarpi er sú regla orðin mun almennari og eðlilegri að mati þess sem hér stendur. Ég tek þó undir það sem stendur í þessu frumvarpi, svo ég vitni beint í frumvarpið, með leyfi forseta:

„Þótt heimilt sé að nota fánann í vörumerki er áfram óheimilt að nota fánann í firmamerki enda ólíku saman að jafna.“

Það er löngu orðið tímabært að Íslendingar auglýsi vöru sína með fánanum í ríkari mæli en gert hefur verið þótt ekki sé fyrir sakir annars en að á Íslandi eru framleiddar slíkar gæðavörur til útflutnings að við eigum að hampa þeim sem íslenskum sem mest væri, rétt eins og aðrar þjóðir hafa gert um langt árabil.

Ég vil jafnframt taka það fram, frú forseti, og taka undir orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og Árna Johnsens, að við eigum að rýmka mjög þær heimildir sem lúta að notkun fánans við hús og byggingar hér á landi. Þar höfum við verið mjög forpokaðir og afturhaldssamir í okkar löggjöf og eins í meðferð reglugerða í ráðuneytum. Ég fagna því sérstaklega sem fram kemur í þessu frumvarpi að hæstv. forsætisráðherra sé heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt því ákvæði sem þar er sagt frá. Ég hvet því hæstv. forsætisráðherra og ráðuneyti hans að rýmka mjög reglur í þessu efni. Íslenska nóttin er björt og dagurinn í birtu mælt varir allan sólarhringinn stóran part úr sumri eins og við þekkjum og sá tími er að renna upp. Mér finnst það í fyllsta máta óeðlilegt að Íslendingar þurfi að taka niður fánann sinn á björtum degi sakir einhverra úreltra reglugerða frá ráðuneytum. Þessu ber að breyta, þetta ber að rýmka og ég held að það sé einmitt tímabært að Íslendingar sýni það sem víðast að þeir eru stoltir af landi sínu og þjóð með því að reisa fána við stöng og hafa hann sem oftast og lengst uppi.