138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

532. mál
[14:31]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég stend hér upp í lok þessarar umræðu til þess að þakka þær ágætu umræður sem orðið hafa um þetta mál og umræðuna um notkun fána okkar. Það hafa vissulega komið fram skoðanir á því hjá öllum þeim sem hér hafa talað að það eigi að fara út í það að rýmka frekar heimildir til þess að nota fánann. Ég verð að segja að ég hef ekki hugleitt það sérstaklega en mér finnst að það sé mál sem eigi að skoða. Það er alveg örugglega svo með þetta mál eins og önnur að það geta verið um það skiptar skoðanir og ég áskil mér rétt til að hlusta á rök þeirra sem mæla gegn þessu. En við fyrstu hugsun líkar mér ágætlega sú hugmynd sem hér kemur fram og mun að sjálfsögðu skoða hana. Vissulega fær nefndin sem fær málið til meðferðar líka tækifæri til þess að skoða það þó að það sé kannski ekki langur tími á þessu þingi til þess að liggja yfir þeirri breytingu. Hún ætti kannski að gefa sér heldur lengri tíma til þess að skoða það vegna þess að ég get mér þess til að það geti verið einhverjar aðrar skoðanir á því en hér hafa komið fram og auðvitað eigum við að skoða öll sjónarhorn í þessu máli.

Varðandi það mál sem hér er til umræðu og þær efnisbreytingar sem lagðar eru til um þjóðfána Íslendinga þakka ég þær undirtektir sem hér hafa orðið. Mér er auðvitað kunnugt um þetta áhugamál Sivjar Friðleifsdóttur, 6. þm. Suðvest., sem rætt hefur um það og hún vakti einmitt máls á þessu fyrr í vetur. Það er auðvitað mjög slæmt að það skuli ekki fyrr hafa verið tekið á þessu máli, þessi löggjöf hefur verið til staðar en hún, eins og ég kom inn á í máli mínu, hefur ekki verið virk vegna þeirra vandkvæða sem verið hafa við að framfylgja þessu ákvæði. Það eru komin tólf ár síðan þannig að það hefði auðvitað átt að reyna að breyta þessu mikið fyrr. Ég er sammála hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og öðrum sem hér hafa talað um að þetta ákvæði í frumvarpinu, nái það fram að ganga, muni hafa mjög jákvæða breytingu í för með sér og sé mjög jákvætt ekki síst fyrir landbúnað okkar, eins og hér hefur verið nefnt. Það er reynsla Dana og ég er sannfærð um að sú verður einnig reynsla okkar Íslendinga þegar þetta frumvarp er orðið að lögum.