138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

líkantilraunir vegna stórskipabryggju í Vestmannaeyjum.

535. mál
[15:38]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um líkantilraunir vegna stórskipabryggju í Vestmannaeyjum.

Það þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um þessa tillögu, virðulegi forseti, hún hefur verið rædd á síðustu tveimur þingum, var fullunnin í samgöngunefnd fyrir þinglok sl. ár en dagaði uppi í atkvæðagreiðslu. Nú fer hún væntanlega aftur til nefndar svo hún á að vera auðunnin í sjálfu sér því að rökin eru þau sömu. Tillagan snýst um það að fullvinna hugmyndir um breytingar á aðstöðu stórskipa í Vestmannaeyjahöfn einfaldlega vegna þess að næstu kynslóðir fragtskipa landsins verða mun stærri en nú er og reikna má með að innan fárra ára verði Vestmannaeyjahöfn of lítil eða of þröngt verði um skipin og ekki nógu mikið dýpi við þær bryggjur sem fyrir eru.

Flutningaskip koma nær daglega til Vestmannaeyja, koma og fara, um 250 skip á ári auk þúsunda fiskiskipa sem eru á ferðinni nætur og daga. Vestmannaeyjar eru jú öflugasta verstöð landsins á landsbyggðinni. Þar eru framleidd um 10% verðmæta í sjávarafurðum þannig að Vestmannaeyjar eru og hafa lengi verið gullkista Íslands.

Þessi tillaga byggir á því að ljúka við þær líkantilraunir sem þegar er verið að vinna í líkanstöð Siglingastofnunar og draga saman upplýsingar sem þegar er búið að vinna um mögulega stórskipahöfn við svokallaða Skansfjöru og eins innan hafnar við Kleifarbryggju og Nausthamarsbryggju. Líklegustu staðirnir eru norðan Eiðis, sem óskað hefur verið eftir, og svo við Skansfjöru eða í innsiglingunni sjálfri. Þetta þarf að gera á einu bretti og ekki er spurning um mikinn kostnað við að koma þessu á lokapunktinn, heldur spurning um að meta valkostina, hvað er hagkvæmast og hvað það kostar.

Ég óska því að þetta mál verði sent til hv. samgöngunefndar.