138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

kennitöluflakk.

497. mál
[15:41]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum til að draga úr kennitöluflakki.

Í frumvarpinu er lagt til að nýr málsliður bætist við lög um hlutafélög frá 1995 og lög um einkahlutafélög frá 1994. Samkvæmt þessum nýja málslið er heimilt að synja félagi skráningar eða afskrá það með hliðsjón af viðskiptasögu stjórnenda og helstu eigenda ef þeir hafa ítrekað verið þátttakendur í rekstri sem farið hefur í þrot. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmdina.

Auk þess er gerð tillaga um að nýr málsliður bætist við lög um gjaldþrotaskipti o.fl. frá 1991. Málsliðurinn hljóðar svo: Ef þrotamaður er félag skal óheimilt að ráðstafa eignum og réttindum búsins varanlega til stjórnenda og helstu eigenda félagsins eða aðila þeim tengdum ef þeir hafa ítrekað verið þátttakendur í rekstri sem farið hefur í þrot.

Tilgangur frumvarpsins er að slá varnagla við því að helstu eigendur og stjórnendur geti í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar orðið uppvísir að því að keyra fyrirtæki sín ítrekað í þrot.

Frú forseti. Það er meginregla félagaréttar í tilviki einkahlutafélaga og hlutafélaga að enginn félagsmanna beri persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins. Að baki reglunni búa sanngirnisrök og það að einstaklingar eigi að hafa tækifæri til að hefja atvinnurekstur án þess að bera persónulega ábyrgð á skuldbindingum sem af því leiða. Undanfarin ár hafa margir yfirfært rekstur á hlutafélagaform sem m.a. má þakka tilkomu einkahlutafélaga, skattalegu hagræði og tískustraumum.

Skiptar skoðanir eru í samfélaginu um ágæti þessarar þróunar. Sumir telja að hún leiði til aukinnar verðmætasköpunar á meðan aðrir hafa efasemdir um hana eftir bankahrunið 2008. Nefna mætti í því sambandi áhyggjur af því að ráðandi eigendur og stjórnendur fyrirtækja misnoti aðstöðu sína innan félaganna eða haldi áfram þátttöku í atvinnulífinu skömmu eftir gjaldþrot þeirra eins og ekkert hafi í skorist, t.d. með þeirri aðferð að flytja eignir hins gjaldþrota félags yfir í nýtt félag en skilja skuldirnar eftir.

Frú forseti. Í dag rakst ég t.d. á heilsíðuumfjöllun í DV sem, með leyfi forseta, ber heitið: „Eignast Besta aftur eftir kennitöluskipti“. Í umfjölluninni er greint frá því að hreinlætisvörufyrirtækið Besta hafi verið selt út úr þrotabúi heildverslunarinnar A. Karlsson til fyrri eiganda félagsins í byrjun þessa árs. Kaupin á Besta voru fjármögnuð með láni frá lánastofnun og eiginfjárframlagi. Með öðrum orðum, eigendurna skorti hvorki fé né lánstraust þrátt fyrir gjaldþrot félags í þeirra eigu.

Frú forseti. Sannarlega geta gjaldþrot fyrirtækja átt sér eðlilegar skýringar. Þegar svo ber undir verðskulda stjórnendur og eigendur þeirra ný tækifæri til rekstrar. Frumvarpið á ekki að koma í veg fyrir þetta. Benda má á að í lögum um hlutafélög og einkahlutafélög kemur fram að í tilkynningu um stofnun hlutafélags og einkahlutafélags skuli sönnur færðar á tiltekin hæfisskilyrði stofnenda og stjórnenda félags.

Heimild hlutafélagaskrár samkvæmt frumvarpinu felur í sér að stofnunin mun geta synjað félagi skráningu eða afskráð það ef viðskiptasaga stjórnenda þess eða helstu eigenda gefur tilefni til. Efnahags- og viðskiptaráðherra er falið að útfæra nánar skilyrði þessa í reglugerð.

Loks er í frumvarpinu lagt til að við skipti á þrotabúum félaga verði skiptastjóra ekki heimilt að ráðstafa eignum og réttindum búsins varanlega til stjórnenda og helstu eigenda eða aðila þeim tengdum við þær aðstæður sem að framan greinir, þ.e. ef viðkomandi hafa oft og ítrekað keyrt félög í þrot.

Frú forseti. Flutningsmenn þessa frumvarps eru sú sem hér stendur, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Þór Saari og Vigdís Hauksdóttir.

Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.