138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

kennitöluflakk.

497. mál
[15:52]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Með þessari umræðu er hreyft við mjög þýðingarmiklu máli sem ég tel rétt að við ræðum allítarlega í sölum Alþingis og í nefndum þingsins. Ég vil þakka hv. flutningsmönnum frumvarpsins fyrir að leggja það fram. Það snertir kennitöluflakk sem hefur verið landlægt á Íslandi um áratugaskeið. Velflest þekkjum við sögur af því. Í kjölfar hrunsins höfum við horft upp á að trúlega hafa aldrei eins mörg fyrirtæki verið úrskurðuð gjaldþrota. Ég held að þau hafi verið um 1.000 á síðasta ári. Á þessu ári hefur aukningin haldið áfram þannig að það er mikið að gerast á þessum vettvangi. Þess vegna má Alþingi ekki láta sitt eftir liggja við að fara ofan í þessi mál.

Ég lít svo á að frumvarpið, sem hv. þingmenn hafa lagt fram, sé ekki einskorðað við alla þá sem því miður hafa lent í hruninu. Lán hafa stökkbreyst og allar aðstæður fyrirtækja á landinu hafa versnað til mikilla muna. Þessu er ekki sérstaklega beint að þeim fyrirtækjum. Ég held að við séum að horfa til framtíðar. Það eru margir atvinnurekendur í dag, smáir sem stórir, sem því miður gátu ekki séð fyrir þær afleiðingar sem efnahagshrunið olli. Að sjálfsögðu er líka um að ræða, inn á milli, aðila sem hafa oftar en einu sinni eða tvisvar skipt um kennitölur á undangengnum árum. En þarna eru líka heiðarlegir atvinnurekendur sem því miður gátu illa séð fyrir hvernig ástand efnahagsmála yrði í dag.

Það hefur komið fram að gríðarlegur fjöldi fyrirtækja er í verulegum greiðsluerfiðleikum og samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka á síðasta ári, og þetta eru þá nokkuð gamlar tölur, var um fjórðungur fyrirtækja með lán í vanskilum um mitt síðasta ár. Við getum gert ráð fyrir því að staðan sé mun verri í dag. Ég hafði ekki nægan tíma til að ná í nýrri upplýsingar. Þetta er einn angi af þessu máli og ég vildi koma því á framfæri að margir atvinnurekendur hafa því miður þurft að horfa eftir fyrirtækjum sínum í þrot, en hafa lítið getað gert við því vegna þess hvernig fyrir okkur fór. En ég er sammála hv. þm. Lilju Mósesdóttur að við þurfum að skoða kennitöluflakk, sem hefur verið mikið rætt í samfélaginu frá því að ég var ungur maður, og eru kannski ekki svo mörg ár síðan. Ég tel að nú, þegar við erum að reyna nýtt upphaf og hugsa hlutina upp á nýtt í íslensku samfélagi, þá sé þetta verkefni sem við þurfum að horfa til.

Mig langar að spyrja hv. þm. Lilju Mósesdóttur hvort hún hafi fyrirmyndir að frumvarpinu sem hún hefur lagt fram. Eru hliðstæðar reglur til á Norðurlöndunum, í Evrópu eða í Bandaríkjunum, þar sem stjórnvöld taka tillit til sögu viðkomandi einstaklinga, til að mynda ef einstaklingur hefur farið með rekstur sinn í þrot fimm sinnum á síðustu fimm árum, eða eitthvað slíkt? Hv. þingmaður veitir hæstv. viðskiptaráðherra heilmiklar heimildir í frumvarpinu til að setja nánari skilyrði í reglugerð. Að mínu mati verður að ganga fram af hógværð í þessum efnum. Það væri ágætt ef þingmenn í viðskiptanefnd mundu fjalla nokkuð um það hvernig menn hugsa þetta í framhaldinu. Er það svo, að ef einstaklingur hefur átt tvö eða þrjú fyrirtæki síðustu fimm eða sjö árin og þau hafa farið í þrot, eitt kannski vegna hrunsins, má þá viðkomandi ekki fá nýja kennitölu? Mér er til efs að það gæti gengið, það væri of gróft. Hins vegar vitum við um aðila sem hafa staðið í rekstri á undangengnum árum og haft einfaldlega tvær eða þrjár kennitölur í gangi. Eins og hv. flutningsmaður nefndi þá hafa þeir tekið eignir út úr fyrirtæki, sett þær inn í nýtt félag og skilið skuldirnar eftir. Það er dapurlegt fyrir starfsmenn þessara fyrirtækja sem missa vinnuna, að horfa upp á þessa þróun. Þetta er nokkuð sem við þurfum að koma í veg fyrir, sérstaklega á þeim tímum þegar það er orðið svo eðlilegt að fyrirtæki fari í þrot vegna ástands efnahagsmála. Þess vegna held ég að stjórnvöld þurfi að einhverju leyti að horfa til forsögu viðkomandi þannig að ekki eigi sér stað endalaus hringrás, að menn éti fyrirtækin innan frá, stofni ný, byrji upp á nýtt og leikurinn haldi þannig áfram.

Þetta er ansi merkilegt þegar maður veltir þessu fyrir sér. Hv. þingmaður nefndi dæmi um að menn taki eignir út úr fyrirtækjum, setji þær inn í ný og skilji skuldirnar eftir. Þá rifjast upp fyrir mér atburðarás sem átti sér stað í kjölfar hrunsins, þegar íslensku viðskiptabankarnir voru stofnaðir. Tugir prósenta af skuldum gömlu bankanna voru skildar eftir þegar eignirnar voru fluttar yfir í nýju bankanna. Afskriftirnar þar — maður mátti víst ekki hafa það eftir og við hv. þingmaður erum í efnahags- og skattanefnd — voru tugir prósenta. Aðferðafræðin í dag er sú að bankarnir ganga mjög hart fram gagnvart fyrirtækjum og heimilum og vilja innheimta 100% af stökkbreyttum skuldum þeirra. Þó var rekstur bankanna undirbyggður þannig við uppskiptin að tugir prósenta voru afskrifaðar af skuldunum. Það kemur ekki heim og saman við mína réttlætiskennd að íslensk heimili, sem eiga erfitt með að ná endum saman mánaðamóta á milli, eigi að borga upp í topp skuldir sínar af stökkbreyttum lánum, í ljósi þess að nýir rekstraraðilar fengu þessar eignir með heilmiklum afskriftum.

Við framsóknarmenn og hv. þm. Lilja Mósesdóttir höfum verið sammála um að það þurfi að bregðast við vanda þessara heimila með því að fara í almennar leiðréttingar af lánum skuldugra heimila. Þannig munum við minnka verulega vanda heimilanna í heild sinni. Þannig getum við með auknum krafti komið til móts við þau heimili sem almenn leiðrétting kemur ekki nægilega til móts við. Ég veit að ég er kominn aðeins út fyrir efnið, en þessi lýsing hv. þingmanns á því, þegar aðilar í atvinnulífinu taka út eignir úr gamla fyrirtækinu, setja yfir í það nýja og skilja skuldirnar eftir, minnir mann óneitanlega á uppskipti bankanna á þessum tíma. Og það er óréttlátt fyrir starfsfólk þessara félaga sem þurfa að horfa upp á vinnubrögð sem þessi. Það er ósanngjarnt gagnvart því fólki að þurfa að horfa upp á vinnubrögð sem eru einfaldlega látin líðast í íslensku samfélagi í dag. Það er líka sárt fyrir íslensk heimili og íslenskt atvinnulíf að horfa upp á það hversu lítið hefur skilað sér af afskriftunum inn í efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja eftir hrun. Það er ósanngjarnt. Og þegar við tölum um fjölda gjaldþrota og skuldugt atvinnulíf þá er það einfaldlega þannig að ef atvinnulífið hefði fengið einhverja leiðréttingu sinna meina væru miklu færri gjaldþrot í íslensku atvinnulífi í dag og íslenskt atvinnulíf væri minna skuldsett. Hvað þýðir það? Það þýðir að þúsundir einstaklinga hefðu ef til vill atvinnu í dag. Við mundum ekki að borga fleiri milljarða á ári úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þess að fólk hefur misst vinnuna. Við höfum því miður ekki náð að koma hæstv. ríkisstjórn á þetta spor, að koma atvinnulífinu í gang. Við þurfum að grípa til róttækra aðgerða vegna þess að sögulega séð lifum við sérstaka tíma. Við þurfum einfaldlega að þora. Ég veit að hv. þm. Lilja Mósesdóttir gerir það, líkt og við framsóknarmenn höfum barist fyrir í rúmt ár. Þess vegna þakka ég hv. þingmanni fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Um leið og við þurfum að læra af fortíðinni, jafnvel að horfa til hennar, megum við ekki gleyma okkur í því að róta endalaust í fortíðinni.

Ég vil sjá að það Ísland sem við byggjum til framtíðar verði ekki þannig Ísland að menn geti stofnað árlega fyrirtæki, hirt eignir út úr þeim, sett inn í nýtt og skilið skuldirnar eftir. Það er einfaldlega ekki Ísland sem ég vil byggja á til framtíðar. Ég held að allir séu sammála um að þetta hafi viðgengist á Íslandi í einhverjum mæli. Þetta er því merkilegt frumvarp. Ég á því miður reyndar ekki sæti í viðskiptanefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar, en ég á von á því að hún muni fara vel yfir þessi mál. Ég legg enn og aftur áherslu á að með frumvarpinu erum við ekki, við sem fögnum því hér, að fella einhvern áfellisdóm yfir þau þúsund fyrirtæki, og þá aðila sem stýrðu þeim fyrir ári síðan, sem hafa farið í þrot á þessu ári. Það á margt sér mjög eðlilegar skýringar og það er eðlilegt að langflestir af þeim aðilum sem að þeim rekstri komu, fái tækifæri á ný. Hins vegar verðum við að horfast í augu við að það eru til aðilar í samfélaginu sem hafa stundað þessa iðju, sem við köllum kennitöluflakk, á undangengnum árum. Það er eitthvað sem við þurfum að stöðva vegna þess að kennitöluflakk hefur þau áhrif að skuldirnar verða eftir í bönkunum, bankarnir þurfa að afskrifa skuldirnar og ekkert er til upp í skuldir. Og hvað þýðir það? Það þýðir einfaldlega að staða bankakerfisins versnar og við erum endalaust að bíta í skottið á okkur í þessum efnum. Þess vegna er mikilvægt, þegar til framtíðar er litið, að við drögum úr kennitöluflakki. Ég lýsi yfir stuðningi við þann anda sem kemur fram í þessu knappa frumvarpi. Ég hnykki á því að það væri gaman að heyra hversu víðtækar heimildir hv. þingmaður vill veita ráðherra til að útfæra þetta mál, sem er kannski frekar lítið útfært. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að langstærstur hluti þeirra sem ráku þessi á annað þúsund fyrirtæki, sem hafa farið í þrot frá hruni, eiga ekki beinlínis sök á því hvernig fyrir þeim er komið? Það er vegna þess að hagkerfið hrundi, skuldirnar stökkbreyttust og allt umhverfi þeirra. Við verðum að hafa það á hreinu í þessari umræðu að við leggjum ekki neinn stóradóm yfir þá sem reynt hafa að reka fyrirtæki í erfiðu árferði.