138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

breytingar á Stjórnarráðinu.

[15:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum fylgst með því núna síðustu sólarhringana að fram fer einhvers konar áframhald á stjórnarmyndunarviðræðum milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og nú eru menn staddir í dagskrárliðnum skipting ráðuneyta. Þetta gerist þrátt fyrir að fyrir liggi klár og afdráttarlaus yfirlýsing frá öðrum stjórnarflokknum, Vinstri grænum, þar sem því er mótmælt að farið skuli í þessa uppstokkun ráðuneytanna. Þá er ég sérstaklega að tala um þær hugmyndir sem uppi eru um að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið.

Á flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs 15. og 16. janúar þar sem sátu um 130 manns var samþykkt ályktun þar sem skorað var á þingflokk VG að endurskoða og yfirfara áform um endurskipulagningu Stjórnarráðsins í ljósi breyttra aðstæðna áður en frekari skref yrðu stigin. Síðan voru flutt rök fyrir því að það væri mjög háskalegt og mundi veikja bæði sjávarútveginn og landbúnaðinn ef þetta skref yrði stigið. Það liggur fyrir að hagsmunaaðilar sem koma að þessum málum með einhverjum hætti eru mjög andsnúnir þessum hugmyndum. Það hefur komið fram hjá mönnum í sjávarútveginum og á búnaðarþingi var gerð samþykkt 3. mars sl., fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan, þar sem mótmælt er fyrirhugaðri sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis við iðnaðarráðuneytið. Þess vegna er mjög undarlegt að öll þessi uppákoma skuli þrátt fyrir þetta eiga sér stað gegn vilja annars stjórnarflokksins.

Þetta er líka mjög sérkennilegt í ljósi þess að hugmyndin gengur í rauninni út á að kasta út úr sjávarútvegsráðuneytinu málefnum sjávarútvegsins og veikja um leið stjórnskipulega stöðu landbúnaðarins eins og bændurnir og búnaðarþing hafa vakið athygli á. Þess vegna er mjög mikilvægt að við fáum viðbrögð og svör hæstv. fjármálaráðherra, formanns VG, (Forseti hringir.) við þessum fréttaflutningi um nýjar stjórnarmyndunarviðræður í landinu.