138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

breytingar á Stjórnarráðinu.

[15:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að flokksráð Vinstri grænna fjallaði um þetta og mörg önnur mál á sínum fundi. Þar var hvatt til þess að þessi áform yrðu yfirfarin og endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna og það er einmitt það sem hefur verið gert. Þetta hefur síðan verið í skoðun og er enn í ferli þar sem menn horfa á möguleikana á því að endurskipuleggja Stjórnarráðið ásamt svo mörgu öðru sem við þurfum að takast á við núna, sameiningu stofnana, skilvirkari stjórnsýslu og samrekstri í málaflokkum sem vonandi geta lagt okkur lið í erfiðri glímu við ríkisfjármálin á komandi missirum og árum. Það væri reyndar mjög undarlegt ef menn skoruðust undan því að takast á við þann þátt málsins eins og alla aðra sem hljóta að vera uppi á borðum núna þegar við stöndum frammi fyrir því risavaxna verkefni sem við Íslendingar gerum, að hafa okkur út úr kreppunni.

Við erum líka með ábendingar um að ýmislegt í okkar stjórnsýslu líður fyrir smáar og dreifðar einingar og það koma mjög skýr skilaboð úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem og skýrslu sérstakrar nefndar sem unnið hefur úr henni um að það sé vænlegur kostur til að takast á við erfið viðfangsefni og ráða bót á aðstæðum sem koma upp, þó að það sé nú kannski ekki eitt stykki efnahagshrun í boði Sjálfstæðisflokksins á hverju ári sem betur fer, að styrkja innviðina, stækka ráðuneyti og sameina stofnanir. Það er mat manna að samlegðaráhrif af þessu þegar frá líður geti verið umtalsverð og hjálpað okkur í glímunni við ríkisfjármálin en ekki síður er þó mikilsvert að við fáum betri og skilvirkari stjórnsýslu út úr þessu. Þetta er allt saman undir. Áformin voru boðuð í stjórnarsáttmála eða samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna. Það er ekki eitthvað sem á að koma einum eða neinum á óvart og fyrstu skrefin hafa þegar verið tekin eins og hv. þingmönnum er kunnugt með stofnun efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fleiri breytingum.