138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

launakjör seðlabankastjóra.

[15:19]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er greinilegt að hæstv. fjármálaráðherra er ekki í góðu skapi á ársafmæli ríkisstjórnarinnar. Hér berum við þingmenn fram spurningar sem eru fullkomlega málefnalegar til hæstv. ráðherra og hann svarar því þannig að hér sé um einhverjar Heimdallaræfingar að ræða. Ég spurði bara hæstv. ráðherra að því hvort hann gæti upplýst mig um hver það var sem veitti seðlabankastjóra loforð um 400 þús. kr. launahækkun og hvort sú launahækkun eða sú tillaga hefði verið borin undir hann áður en hún var lögð fram í bankaráði. Ég fékk engin svör við fyrri spurningunni.

Það er alveg ótrúlegt að við þurfum að sitja undir því hér, þingmenn, eftir allt sem sagt hefur verið um aukið gagnsæi og opnari og betri stjórnsýslu að þegar menn vilja fá upplýsingar um (Forseti hringir.) hvað er satt og hvað er ósatt í þessu máli sé þeim spurningum svarað með þeim hætti sem hæstv. fjármálaráðherra gerði. Það er mjög slæmt.