138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

viðbrögð iðnaðarráðherra við yfirvofandi bankakreppu.

[15:24]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að hv. þingmaður sé að spyrja mig persónulega um hvernig ég sjálf hafi brugðist við, hver mín skoðun hafi verið á ástandinu, hver mín sýn hafi verið á ástandið. Þá nægir hv. þingmanni að fara í þingræður mínar þar sem ég hef talað fyrir því á undanförnum árum frá því að ég settist inn á þing að það væri mikil vá í loftinu vegna stöðu íslensku krónunnar sem aldrei hafði haft réttan verðmiða á sér. Það taldi ég vera mikil hættumerki um hvernig staðan gæti orðið hér ef illa færi. Þess vegna hef ég talað fyrir því og geri það enn að við þyrftum að fara inn í stöðugra efnahagsumhverfi sem fylgir aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru. Það er eitt atriði sem ég get nefnt hér og ég hef verið samkvæm sjálfri mér í þeim málflutningi.

Á það var ekki hlýtt og það er alveg klárt að sá flokkur sem við störfuðum með í ríkisstjórn þá, Sjálfstæðisflokkurinn, hafði ekki áhuga á þessu umræðuefni, sem sýndi sig líka í þingræðum þingmanna þess ágæta flokks á þeim tíma.

Eftir að fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar bar okkur þessi tíðindi inn á þingflokksfund óskaði ríkisstjórnin heimildar Alþingis, sem hún og fékk og ég tók þátt í að veita, til að taka stórt lán fyrir ríkið til að styrkja stöðu ríkissjóðs, að styrkja stöðu gjaldeyrisvaraforðans. Við skulum hafa það í huga að þetta var ekki í fyrsta sinn sem blikur voru á lofti vegna þess að það var svokölluð „míníkrísa“ á árinu 2006 þannig að menn höfðu tekið ástandið mjög alvarlega síðan þá.

Ég vona að þetta hafi svarað spurningu hv. þingmanns að einhverju leyti en ég held að við þurfum miklu lengri umræðu til þess að geta farið yfir það frá A til Ö hvað ég (Forseti hringir.) tel hafa verið gert rangt í efnahagsstjórn undanfarinna áratuga hér á landi.