138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

viðbrögð iðnaðarráðherra við yfirvofandi bankakreppu.

[15:26]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Á þessum tíma var ég formaður iðnaðarnefndar. Ég var líka formaður þingmannanefndar Íslandsdeildar EFTA og EES. Í gegnum þær nefndir tel ég að við sem þar sátum höfum lagt okkar lóð á vogarskálarnar til að bæta það ástand sem uppi var. Bein aðkoma okkar að ákvörðunum í efnahagsmálum var í gegnum þingsalinn, í gegnum atkvæðagreiðslur sem hér fóru fram og ákvarðanatökur.

Ég tel að hugsanlega hefði maður átt að ganga harðar fram gegn samstarfsflokknum varðandi það að knýja fram umræðu um hvert við værum að stefna hér, ekki bara í efnahagsmálum heldur í víðu samhengi. Við sitjum uppi með bullandi gjaldeyriskreppu, einhverja þá verstu sem nokkurt ríki hefur lent í á síðari tímum. En samstarfsflokkur okkar þá, Sjálfstæðisflokkurinn, var ekki tilbúinn í þau 18 ár sem hann sat í ríkisstjórn, ekki heldur þegar hann sat í ríkisstjórn með okkur, að ræða það að skipta um gjaldmiðil þó að við reyndum að taka upp þá umræðu (Forseti hringir.) að hugsanlega þyrftum við að gera það. (Forseti hringir.) Ég hefði hugsanlega getað gengið lengra í því en ég tel mig þó hafa gengið eins langt og (Forseti hringir.) mögulegt var á þeim tíma. (Gripið fram í.)