138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

notkun rannsóknarskýrslu Alþingis í skólastarfi.

[15:32]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir viðbrögð hennar og svör. Ég tel sjálfur afskaplega þýðingarmikið og mikilvægt fyrir samfélag okkar að skólakerfið og uppeldisstofnanir taki rannsóknarskýrsluna alvarlega vegna þess að í starfinu sem bíður okkar á næstu missirum og árum við að byggja upp og endurreisa samfélag okkar skiptir ekki síður máli hvernig ungt fólk, hvort sem það er í grunnskóla-, framhaldsskóla- eða á háskólastigi, tekst á við og stúderar það sem lesa má í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og láta það verða lærdóm til framtíðar.

Það er kannski eitt atriði sem ég vil ítreka sem ekki kom svar við frá hæstv. ráðherra við fyrirspurnum mínum, það er spurningin um hvort það er möguleiki að mati ráðherrans að setja einhverja vinnu í að vinna einhvers konar kennsluefni fyrir mismunandi skólastig upp úr skýrslu (Forseti hringir.) rannsóknarnefndarinnar.