138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:48]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson gerði athugasemd við áðan er að hann hefur í þrígang ætlað að spyrja hæstv. ráðherra um málefni er tengjast miklum náttúruhamförum sem eiga sér stað á Suðurlandi. Það er eðlilegt, og eðlilegt að hv. þingmaður, þingmaður þess kjördæmis, vilji inna hæstv. ráðherra eftir svörum við spurningum sínum. Nú hefur það komið fram í þessari fínu umræðu um fundarstjórn forseta að það er þverpólitískur vilji á Alþingi fyrir því að breyta þingsköpum þannig að við getum veitt framkvæmdarvaldinu meira aðhald.

Fyrir nokkrum vikum kom fram í þingsal þessi sami vilji til að breyta þingsköpum Alþingis. Þá er eðlilegt að við spyrjum hæstv. forseta: Hvenær hyggst hæstv. forseti sem forustumaður þingsins beita sér fyrir því að við breytum fundarsköpum þannig að við þingmenn getum sýnt framkvæmdarvaldinu meira aðhald en við höfum gert?