138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

skattar og fjárlagagerð 2011.

[16:07]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég held að við hæstv. fjármálaráðherra séum sammála um að meginverkefnið sé að koma Íslandi í gegnum erfiðleikana og koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Okkur greinir hins vegar á um leiðirnar.

Af þessu tilefni held ég að það sé vert að vitna í ræðu sem John F. Kennedy hélt árið 1962 þar sem hann sagði m.a., með leyfi forseta:

„Efnahagskerfi sem er þrúgað af háum sköttum mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum alveg eins og það mun aldrei búa til nægilegan hagvöxt eða nægilega mörg störf.“

Núna 48 árum síðar er ljóst að þessi einföldu sannindi vefjast fyrir hæstv. ríkisstjórn. Ég spyr hæstv. ráðherra fjármála hvort hann geti svarað eftirfarandi spurningum: Getur hann gefið landsmönnum, almenningi, fyrirheit um það fyrir komandi ár að ekki verði gengið lengra í álögum á almenning? Getur hæstv. ráðherra sagt við atvinnulífið að það hafi þrátt fyrir allt séð það versta og þurfi ekki að óttast skattstefnu sem byggir á „You ain't seen nothing yet“? Getur hæstv. ráðherra upplýst hvað hann telur ásættanlegt fyrir afkomu ríkissjóðs á komandi ári? Eru það 10 milljarðar í halla eða 50 milljarðar? Að hverju stefnir hæstv. ráðherra?