138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

skattar og fjárlagagerð 2011.

[16:09]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Verkefnin í ríkisfjármálum eru ærin eftir efnahagshrunið og gjaldþrot hagstjórnarstefnu fyrri ríkisstjórnar. Að sjálfsögðu er spurt hvaða leiðir séu færar til að takast á við þann vanda sem við vitum öll að þarf að takast á við. Í grófum dráttum má segja að leiðirnar séu einkum þrjár, þ.e. að auka tekjur, lækka útgjöld eða auka skuldsetningu. Að sjálfsögðu er tekist á um hlutföllin þarna á milli og samhengið milli þeirra og það er þekktur skoðanaágreiningur milli stjórnmálafylkinga um skattamál hve stór hluti ríkissjóðs við viljum að séu tekjur teknar inn í almennum sköttum.

Við þekkjum líka umræðuna um það að hægri menn vilja gjarnan lækka skatta en frekar auka tekjur ríkissjóðs með þjónustugjöldum ýmiss konar og líta ekki svo á að það séu skattar. Á hinn bóginn hafa vinstri menn lagt meiri áherslu á að taka inn tekjur til samneyslunnar með almennum skattálögum frekar en þjónustugjöldum. En skattkerfið er líka mikilvægt tekjujöfnunartæki og það er í anda góðrar norrænnar velferðar að nýta skattkerfið sem slíkt.

Að mínu viti er ekki hægt að bera stöðuna á ríkisfjármálum okkar í dag saman við hefðbundnar efnahagssveiflur. Það sem við horfum fram á í dag er miklu meira en hefðbundnar efnahagssveiflur. Vitaskuld er mikilvægt við þessar aðstæður að tryggja að hjól atvinnulífsins komist á góða ferð áfram og sem betur fer eru margvísleg teikn á lofti þrátt fyrir allt, þrátt fyrir erfiðar aðstæður í þjóðarbúskapnum. Margt hefur tekist betur en spár gerðu ráð fyrir og vinnan við fjárlagagerð ársins 2011 mun að sjálfsögðu halda áfram á næstunni eins og lög gera ráð fyrir. Hér hefur komið fram að meginþunginn í skattbreytingum hefur þegar komið fram þannig að ekki er við því að búast að ráðist verði í margvíslegar nýjar aðgerðir í því efni (Forseti hringir.) heldur verði þunginn fyrst og fremst varðandi útgjaldahliðina. Væntanlega gefst tækifæri til að ræða þá hluti (Forseti hringir.) betur áður en langt um líður.