138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

dómstólar.

390. mál
[16:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér afgreiðum við eftir 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla sem einkum snýr að breyttum reglum um skipan dómara, fyrirkomulagi dómnefndar og aðkomu Alþingis þar að. Það má margt um einstök atriði frumvarpsins segja, sumt getur verið þar til bóta, annað tel ég að þyrfti betri íhugun. Hins vegar vildi ég lýsa þeirri afstöðu minni og afstöðu sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd að við teljum ekki ástæðu til að styðja þetta mál en munum ekki greiða atkvæði gegn því þar sem við teljum að það sé eðlilegra að grundvallarbreytingar sem snerta skipan dómstóla fari inn í feril varðandi stjórnarskrárbreytingar og að reglur af þessu tagi séu í stjórnarskrá en ekki almennum lögum. Við teljum að framtíðarfyrirkomulag þessara mála eigi fyrst og fremst að ákveða í tengslum við fyrirhugaða (Forseti hringir.) endurskoðun stjórnarskrár.