138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[16:54]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa framsögu og þær skýringar sem hæstv. forsætisráðherra hefur nú gefið eftir að hafa lagt þetta frumvarp fram í samstarfi við undirritaðan og aðra formenn flokka utan Hreyfingarinnar. Ég vil láta þess getið í upphafi þessarar umræðu að augljóslega er um að ræða niðurstöðu nefndar sem flokkarnir komu sér saman um að mundi starfa að því að gera frumvarp til laga. Þetta mál mun síðan eftir 1. umr. fara áfram til nefndar og verða þar til umfjöllunar. Mig langar til að láta þess getið hér að ég tel fullt tilefni til þess fyrir nefndina að skoða málið mjög vandlega og hafa m.a. í huga þær athugasemdir sem ég ætla að minnast hér stuttlega á við 1. umr. málsins.

Í fyrsta lagi er ástæða til að láta þetta mál og almennt lögin um fjármál stjórnmálaflokka, stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, vera sér til áminningar um að það var strax á árinu 2006 sem við hér á þinginu settum mjög ákveðna löggjöf, ákveðinn ramma, utan um þessi efni. Að undanförnu hafa fjármál stjórnmálaflokkanna, fjárhagsleg samskipti þeirra við fyrirtækin í landinu og ekki síður frambjóðenda við fyrirtækin í landinu, eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á í máli sínu, verið mjög til umfjöllunar og mörgum þótt sem menn hafi farið of geyst. Ég get tekið undir það. Við erum með dæmi um styrki, bæði til frambjóðenda, heildarstyrki, og einnig erum við með dæmi um styrki til stjórnmálasamtaka sem eru langt umfram þau viðmið sem við viljum að séu notuð í slíkum samskiptum.

Þá skiptir öllu að við skyldum hafa gripið inn í það mál strax á árinu 2006 og lögin sem hér hafa gilt frá árinu 2007, sem sagt frá upphafi árs 2007, eru svarið. Þau eru svar okkar stjórnmálamannanna við þessari umræðu. Það svar kom fram fyrir rúmlega þremur árum.

Í frumvarpinu má finna stutta samantekt í greinargerðinni á því hvernig þessum málum er háttað hér á landi annars vegar og á Norðurlöndunum hins vegar. Það er mjög fróðlegt að renna aðeins yfir þá samantekt vegna þess að í henni birtist mjög skýr mynd hvað þetta snertir. Þar kemur t.d. fram, undir lið VI á bls. 18, að í Danmörku eru engar lagalegar takmarkanir í gildi hvað snertir upphæð framlaga frá lögaðilum og einstaklingum, engar takmarkanir í gildi. Á árinu 2006 urðum við sammála um það hér að setja viðmið við 300 þús. kr. eins og segir í frumvarpinu.

Sömu sögu er að segja frá Svíþjóð. Þar er ekki einu sinni lagt bann við því að stjórnmálasamtök taki við nafnlausum framlögum. Sama sagan í Finnlandi. Engin hámörk. Það eru helst Norðmenn sem hafa sett takmarkanir við einkaframlögum til stjórnmálastarfsemi. Þar er í fyrsta lagi, eins og segir í frumvarpinu, lagt bann við nafnlausum framlögum til stjórnmálasamtaka og síðan er tekið fram að þeim beri að skila í ríkissjóð nafnlausum framlögum eins og er reyndar verið að leggja til að við látum gilda hér á landi með þessu frumvarpi.

Þessu vildi ég koma að hér í upphafi sem mjög mikilvægu innleggi inn í umræðuna um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda. Við höfum sett reglur. Þær hafa gilt hér á landi í mörg ár og þær eru miklu strangari en nokkurs staðar annars staðar, a.m.k. ef við lítum til þeirra landa þangað sem við erum vön að horfa.

Það er síðan ákveðið umhugsunarefni að við skyldum hafa valið að fara þá leið að binda hámarksframlögin við 300 þús. kr. og leggja framlagsskyldu á ríkið, á hið opinbera. Í millitíðinni höfum við ákveðið að það framlag sem stjórnmálasamtökin taka við frá ríkinu, frá hinu opinbera, skuli ekki verðbætt. Við ákváðum að gera það núna í fjárlögum þessa árs. Ég held að það hafi ekki verið nokkrar forsendur til þess að láta stjórnmálasamtökin í landinu fá verðbætt framlag miðað við fyrri fjárlög frekar en svo marga aðra sem treysta á framlög af opinberu fé. Engu að síður ætti þetta að verða okkur visst umhugsunarefni þegar við höfum sett skýr mörk og þröng við framlögum frá lögaðilum og einkaaðilum, að þessi byrði skuli núna hvíla á hinu opinbera og við síðan mögulega ár eftir ár treystum okkur ekki til að verðbæta þá upphæð sem við komumst að samkomulagi um í upphafi. Erum við sammála um það, t.d. hér á þinginu, að það sé eitthvert markmið að þrengja mjög að starfsemi stjórnmálasamtaka? Er það eitthvert sérstakt markmið? Ég hefði ekki haldið að við ættum að hafa það sem markmið. Þvert á móti eigum við að leyfa stjórnmálasamtökunum að þróast og vera sem frjálsust en það þarf að tryggja gegnsæi.

Mér leist ekki vel á þær hugmyndir sem forsætisráðherra viðraði hér í framsögu sinni, um að við ættum að fara að ganga lengra í því að ákveða hvernig stjórnmálasamtökin verja því fé sem þau hafa fengið frá ríkinu. Ef við ætlum að feta þá braut vil ég frekar hverfa frá því að skattfé sé notað til að standa undir starfsemi stjórnmálaflokkanna og veita þeim aðeins rýmra svigrúm til að afla sér fjár til starfsemi sinnar að öðru leyti.

Það fer ekki fram hjá neinum sem kynnir sér efni þessa máls að það er megintilefnið til breytinga á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda að það skorti reglur um embætti forseta Íslands. Ég ætla ekki að fara með langt mál um þann þátt frumvarpsins, ég held að við hljótum að geta verið sammála um að mikilvægt sé að skýrar reglur gildi um þau efni eins og um stjórnmálasamtökin og frambjóðendur aðra. Ég fagna því einfaldlega að við séum að ljúka þessum þætti málsins með frumvarpinu. En mig langar til að koma inn á nokkur önnur atriði sem snúa að stjórnmálasamtökunum og reyndar frambjóðendum og láta vera að fara mjög djúpt inn í kaflann um forsetann þó að sá kafli sé það sem var kannski fyrst og fremst tilefni til þess að opna þessa löggjöf. Ég ætla ekki að gera lítið úr öllu hinu sem tínt er til í frumvarpinu og stafar af ábendingum frá GRECO.

Ég vil fyrst nefna það, af þessum fáu atriðum sem ég ætla að minnast á til viðbótar, eins og segir hér í greinargerðinni, að þegar fyrri lögin voru samþykkt var haldið mjög í það grundvallarmarkmið tilmæla Evrópuráðsins 2003 að einstaklingar hefðu möguleika á að styrkja stjórnmálastarfsemi upp að ákveðnu marki. Ég lít á þetta sem mikilvægan þátt þessa regluumhverfis sem við fjöllum hér um. Þetta er hluti af tjáningarfrelsinu, rétturinn til þess að styðja við þann málstað sem hver og einn vill, rétturinn til þess að styðja við stjórnmálasamtök, vegna þess að þau tala fyrir máli sem viðkomandi er ánægður með. Menn voru mjög meðvitaðir um að mikilvægt væri að halda í þennan rétt þegar við samþykktum lögin 2006. Á þeim tímapunkti ákváðum við að hæfilegt væri að sama viðmið í þessu gilti fyrir stjórnmálasamtök og einstaklinga, 300 þúsund.

Nú er ákveðið að lækka nafnleyndargólfið hvað einstaklingana snertir. Ef við horfum til þess hvernig nafnleyndargólfið var ákveðið 2007, um 300 þús. kr., verðum við að hafa í huga að sú upphæð hefur rýrnað talsvert að verðgildi í millitíðinni, þó ekki væri nema fyrir verðbólguna. En hér er lagt til að nafnleyndargólfið verði lækkað niður í 200 þús. kr. og öll framlög yfir nafnleyndargólfinu skuli gerð opinber. Ég held að þetta sé eitt af því sem nefndin hljóti að þurfa að skoða nokkuð nákvæmlega. Hvert er tilefnið? Jú, tilefnið er það að GRECO vekur athygli á því að skynsamlegt sé að hafa nafnleyndargólfið lægra en hámarksframlagið. En við höfum búið til löggjöf sem setur svo lágt viðmið um hámarksframlag að þess þekkjast engin dæmi á Norðurlöndunum. Ef við skoðum það sem GRECO ætti einkum að vera að einbeita sér að held ég að þeir ættu að hætta að hafa miklar áhyggjur af Íslandi í ljósi þess sem við höfum gert og fara að einbeita sér að þeim löndum þar sem engar reglur eru í gildi, ekki nokkrar einustu reglur hvað hámarksframlög snertir.

Við settum mjög lágt þak á hámarksframlagið og mér finnst það mikið umhugsunarefni hvort eitthvert sérstakt tilefni er til þess að fara að setja nafnleyndargólfið miklu lægra. Ég hef ekki djúpa sannfæringu fyrir því að 300 þús. kr. framlagið, sem á reyndar að hækka upp í 400 þús. kr., sé svo hátt að að það séu ríkir almannahagsmunir að opinbera nöfn þeirra einstaklinga sem hafa ákveðið að styrkja stjórnmálasamtök um þá fjárhæð. Ég verð að segja að mér finnst sem rökin sem tínd eru til í greinargerðinni, um að 300 þús. kr. framlag sé almennt umfram það sem einstaklingar séu tilbúnir til að láta af hendi til stjórnmálasamtaka eða einstakra frambjóðenda, til styrktar þeim málstað sem viðkomandi flokkur eða frambjóðandi stendur fyrir — þau rök finnst mér ekki ein og sér réttlæta það að setja gólf á þetta.

Þá verður að hafa í huga að í fyrsta lagi verður þetta ávallt afar einstaklingsbundið en í öðru lagi ætti viðmiðið sem við erum að horfa til að vera út frá sjónarhorni stjórnmálaflokksins, ekki út frá sjónarhorni einstaklingsins. Við getum að sjálfsögðu fundið dæmi þar sem 100 þús. kr. framlag væri langt umfram það sem viðkomandi einstaklingur gæti réttlætt fyrir öðrum fjölskyldumeðlimum að leggja einhverjum málstað til fjárhagslega til að styðja við þau sjónarmið sem hann vill að haldið sé á lofti. En út frá sjónarhorni stjórnmálasamtakanna verða 100 þúsund krónurnar kannski afskaplega lítilvægar. Það hlýtur að vera viðmið sem við verðum að horfa til. Hversu miklu máli skiptir framlagið fyrir stjórnmálasamtökin vegna þess að við erum að setja skorður við því að menn geti fengið framlög sem eru líkleg til þess að hafa áhrif á þá. Eins og ég vék að áðan eru það sjónarmið, m.a. um tjáningarfrelsi, sem við hljótum að þurfa að hafa til hliðsjónar hér.

Að öðru leyti vil ég nota þetta tækifæri til að þakka nefndinni sem hefur unnið að þessu máli fyrir ágætlega unnin störf. Það er greinilegt á málinu í heild sinni að vandað hefur verið til verka þó að maður geti gert athugasemdir við einstaka áherslur í málinu. Það hefur ekki verið kastað til hendinni heldur verið unnið töluvert mikið starf og fyrir það ber að þakka hér á þinginu.

Að öðru leyti vil ég ítreka óskir mínar um að nefndin sem fær málið til meðhöndlunar taki það til skoðunar, velti fyrir sér þessum ólíku þáttum. Við þurfum að vanda mjög til verka og það er ekkert sjálfgefið, þegar kemur að fjármálum frambjóðenda og stjórnmálaflokka, að við eigum sífellt að feta okkur lengra eftir þeirri braut að þrengja meira að stjórnmálasamtökum og gera mönnum erfiðara fyrir. Höfum í huga að við höfum ákveðið að fara þá leið að setja mjög þröngar girðingar við framlögum en velta byrðinni yfir á skattgreiðendur. Þeir borga á þessu ári 370 milljónir til stjórnmálasamtaka.