138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[17:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt út af þessu sem ég kalla eftir því að stjórnmálaflokkar setji sér almennar siðareglur og fylgi þeim. Ef það er alveg sama hvaða lög og reglur við setjum í samfélaginu þá er hv. þm. Pétur H. Blöndal að leggja til að stjórnmálaflokkarnir fari strax að huga að því hvernig þeir geti svindlað á kerfinu ef fyrirtækin mega ekki styrkja þá. Mér þykir miður að heyra það miðað við hvaða áfellisdóm stjórnmálaflokkarnir fengu á sig í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Ég held að nú sé kominn tími til þess í okkar samfélagi á öllum stigum, ekki síst hjá okkur í þessum sölum, að sýna siðferðisþrek. Við þurfum að sýna að við séum gott fordæmi fyrir þjóðina með því t.d. að skera niður hve miklir peningar eru notaðir í kringum flokkana. Það er engin þörf á svona miklum peningum, það er bara mjög einfalt reikningsdæmi. Á meðan fólk telur sér trú um að það þurfi að hafa svona mikla umgjörð og svona mikið skraut er hægt að réttlæta allar þessar ótrúlegu upphæðir sem fara í að reka stjórnmálaflokka. Þetta er alveg með ólíkindum. Ég skora því á stjórnmálaflokkana að skera niður hjá sér, þótt það væri ekki nema um 50%.