138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[17:35]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir hans ræðu og vangaveltur. En ég var satt að segja engu nær um álit hans eða skoðun á því máli sem hér um ræðir, þ.e. framlög til stjórnmálaflokka eða samtaka, hvað það er sem hann vill í þeim efnum ef hann vill yfir höfuð gera einhverjar breytingar frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Hv. þingmaður gefur í skyn, að mér fannst, að það gæti jafnvel skipt máli hvers konar aðdragandi væri að því að fólk færi í framboð, hvort það væri prófkjör, forval eða uppröðun. Þær mismunandi leiðir sem fólk færi kosta mismikið, það er vissulega rétt. En má skilja hv. þingmann á þann veg að styrkir eigi þá að fara samkvæmt því hvers konar leiðir fólk velur að fara? Það kostar vissulega meira að ná til fleira fólks en færra eins og hv. þingmaður benti réttilega á. Mig langar því að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort skilja megi hann á þann veg að líta eigi á þetta frá þeim sjónarhóli, hverjar leikreglurnar eru, hvort um er að ræða prófkjör, forval, uppröðun eða eitthvað annað, og þá megi upphæðirnar vera með mismunandi hætti.

Hv. þingmaður nefndi mörg dæmi um hvað mundi gerast ef eigandi eða styrkveitandi ætti mörg fyrirtæki, gæti hvert fyrirtæki fyrir sig veitt styrk, eins og hann kom með dæmi um áðan, eða með óbeinum hætti, bensínkostnaði, pítsupartíum, auglýsingum eða hverju því sem þingmaðurinn nefndi. Hvernig sér hv. þingmaður þetta fyrir sér og hvaða leiðir leggur hv. þingmaður til í þessum málum?