138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[17:39]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Vissulega er það rétt, sem hv. þingmaður nefnir, að gagnsæi þarf að vera til staðar, þ.e. að það liggi fyrir hverjir styrkja stjórnmálaflokkana og með hvaða upphæðum hverju sinni. Það er algerlega nauðsynlegt. En þannig hefur það ekki verið undanfarin ár og áratugi. Ekki er nema rétt liðlega ár síðan upp komst um einhverja mestu styrki sem nokkur stjórnmálaflokkur hefur fengið á Íslandi. Það var ekki vegna þess að það lægi fyrir heldur komst hreinlega upp um það að Sjálfstæðisflokkurinn þáði tugi milljóna í styrki frá nokkrum stórum fyrirtækjum. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki enn gengist við þeim styrkjum, þ.e. viljað viðurkenna hverjir hafa verið að styrkja þá persónulega, sitjandi þingmenn á Alþingi enn þann dag í dag. Þess vegna m.a. er þetta mál komið fram og ég geri mér grein fyrir því, eins og við öll hér inni, held ég, að þetta er engin allsherjarlausn.

Þetta er ekki endanleg lausn á málinu og mun ekki leysa það til framtíðar. En hér er verið að bregðast við áfellisdómi yfir stjórnmálaflokkunum — sumir stjórnmálaflokkar voru að vísu fyrir löngu búnir að setja sér siðareglur og vinnureglur varðandi styrki og framlög fyrirtækja og einstaklinga og hvernig frambjóðendur þeirra mættu haga sér í aðdraganda kosninga, og það var ekkert því til fyrirstöðu að aðrir stjórnmálaflokkar gætu gert það. Það vantaði bara viljann til verksins. Þess vegna er þetta mál komið fram.

Jafnsammála og ég er hv þingmanni um að í frumvarpinu eru ákveðnar veilur, eins og hann benti réttilega á, ætla ég að vona að hann, og það er mín lokaspurning til hv. þingmanns, styðji frumvarpið eins og það liggur fyrir og telji það til bóta jafnvel þó að gera megi betur.