138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[17:47]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa tölu langa en frumvarpið sem hér er til umræðu, um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, er með þeim hætti að ótrúlegt er ef þessi hv. samkoma ætlar að samþykkja það. Hér er um ótrúlegt framsal á löggjafarvaldi að ræða og einnig framkvæmd laganna og þegar og ef hv. þingmenn samþykkja þetta frumvarp vita þeir ekki til hvaða atvinnugreina eða stétta lögin ná til né hafa þeir hugmynd um það hvernig framkvæmd laganna verður háttað. Það er ekki aðeins að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sé heimilt að setja reglugerð um framkvæmd laganna ef frumvarpið nær fram að ganga heldur er aðilum vinnumarkaðarins í raun í sjálfsvald sett hvernig lögunum verður framfylgt og hverjir falla undir þau og eftir því sem best verður séð verður það einnig breytilegt frá einum tíma til annars til hvaða aðila, atvinnugreina og starfsmanna lögin ná. Þetta er einmitt dæmi um það hvernig ekki á að hátta lagasetningu á Alþingi.

Það er ekki hægt að veita samtökum vinnumarkaðarins þau völd sem hér er lagt til að verði gert. Að það verði í höndum örfárra manna að leggja þær kvaðir á atvinnurekendur og starfsmenn að hafa á sér vinnustaðaskírteini alla daga við öll sín störf vekur furðu og er, eins og hv. þm. Pétur Blöndal vék að áðan, í raun atlaga að atvinnufrelsi og félagafrelsi sem tryggð eru í stjórnarskrá og því má draga í efa að frumvarpið standist ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég hefði haldið að hyggilegra væri fyrir Alþingi að setja þetta frumvarp til hliðar og athuga alvarlega hvort það brjóti gegn stjórnarskrárvörðum réttindum einstaklinga.

Samtökum aðila vinnumarkaðarins verður heimilt að semja um nánari útfærslu vinnustaðaskírteina í samningum sín á milli. Hvorki löggjafinn né framkvæmdarvaldið hafa neitt um það að segja hvernig lögunum verður framfylgt heldur eiga aðilar úti í bæ að hafa eftirlit með og fylgja því eftir að böndum sé komið á þær atvinnugreinar og þau fyrirtæki sem viðkomandi sérhagsmunaaðilar telja með einhverjum hætti og af einhverjum ástæðum nauðsynlegt að koma böndum á. Eftirlitsfulltrúar þessara aðila eiga síðan að senda upplýsingar sem koma fram á vinnustaðaskírteinum til skattyfirvalda, Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar ríkisins, lögreglustjóra og þegar við á Útlendingastofnunar og Þjóðskrár þannig að unnt sé að kanna hvort atvinnurekandi eða starfsmaður starfi í samræmi við hlutaðeigandi lög og hlutaðeigandi kjarasamninga. Þá er eftirlitsfulltrúum þeirrar lögreglu sem verður komið á fót nái frumvarpið fram að ganga heimilt að leita aðstoðar hinnar formlegu lögreglu eftir því sem við á. Verst er þó að samtökum aðila vinnumarkaðarins er heimilt að semja nánar sín á milli um málsmeðferð í málum þar sem grunur leikur á að brotið hafi verið gegn ákvæðum hlutaðeigandi kjarasamninga. Ég hygg að við hæfi væri að Alþingi legði þetta frumvarp í salt. Það kann vel að vera að tilgangurinn sé góður og göfugur en ég held að ljóst sé að hér sé gengið allt of langt og gengið gegn öllum grunnhugmyndum okkar um atvinnufrelsi og félagafrelsi.