138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

504. mál
[18:09]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir málefnalegt og gott innlegg. Ég var búinn að velta þessu máli mjög mikið fyrir mér, hvernig best væri að nálgast þetta. Niðurstaðan er í mínum huga sú að best sé að gera þetta með þessum hætti. Við erum með vinnubrögð sem við þekkjum, sem er rannsóknarnefnd Alþingis — við getum alveg verið þeirrar skoðunar að fleira hefði mátt vera í þeirri skýrslu og við getum jafnvel verið þeirrar skoðunar að umræðan megi fara að komast á uppbyggilegri braut hvað þá skýrslu varðar, þ.e. að við förum að nýta þau tækifæri sem skýrslan býður okkur til að byggja upp betra umhverfi, hvort sem það er í fjármálageiranum eða annars staðar. En við getum öll verið sammála um að það er mjög mikilvægt að fá þessar upplýsingar fram. Ég lít svo á að það sé jafnvel mikilvægara að fá fram þær upplýsingar sem sú nefnd, sem frumvarp mitt gerir ráð fyrir, ætti að fjalla um, a.m.k. ekki minna mikilvægt. Ég lít svo á að við séum með góðan bandamann í hv. þm. Birni Val Gíslasyni og það er afskaplega mikilvægt því að það er brýnt að við séum með breiða pólitíska samstöðu hvað þetta varðar. Þetta er mál sem er þess eðlis að þinginu væri sómi að því ef við mundum vinna að því saman að ganga frá þessari nefndaskipan og reyna að vinna þetta eins hratt og mögulegt er. Þetta er miklu minna og afmarkaðra verkefni en rannsóknarnefnd þingsins en ekki síður mikilvægt. Og ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir stuðninginn í þessu máli.