138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

504. mál
[18:27]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að fagna þessu frumvarpi til laga um rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja á tímabilinu frá október 2008 til ársloka 2009. Frumvarpið tekur á brotalöm sem varð við lagasetningu í október á síðasta ári þegar við settum lög nr. 107 þess efnis að eftirlitsnefnd skyldi fylgjast með fjárhagslegri endurskipulagningu fjármálafyrirtækja á fyrirtækjum. Því miður varð okkur á í messunni og þessari sérstöku nefnd sem átti að hafa eftirlit með því hvernig bankar tækju ákvarðanir, m.a. um afskriftir lána fyrirtækja, var aðeins falið að skoða tímabilið frá setningu laganna en ekki frá því að neyðarlögin voru sett. Það uppgötvaðist ekki að við höfðum skilið eftir u.þ.b. heilt ár sem enginn átti að skoða. Það er því alveg ljóst að það þarf að gefa, hvort sem er þeirri nefnd sem við erum þegar búin að skipa á grundvelli laganna frá því í haust, eða einhverri annarri nefnd, vald til afla upplýsinga frá lánastofnunum. Upplýsinga þarf að afla um ákvarðanir og verklagsferla sem lánastofnanir hafa notað til að ákveða hvaða fyrirtæki á að taka yfir, á hvaða forsendum, hversu mikið á að skrifa lán niður og hvaða hluta af starfseminni á að selja öðrum fyrirtækjum eða jafnvel að setja í opið söluferli.

Það sem ég velti fyrir mér, frú forseti, þegar ég las þetta frumvarp, er hvers vegna það felur ekki í sér breytingartillögu við lög nr. 107/2009. Þar væri eftirlitsnefndinni falið að skoða, ekki aðeins tímabilið frá því í lok október á síðasta ári fram til þess að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja lýkur, heldur líka tímabilið frá setningu neyðarlaganna. Það hefði líka verið hægt að fara þá leið, að gefa nefndinni heimild til að skoða þetta ár sem féll utan verksviðs nefndarinnar.

Ég vil þá enn og aftur fagna þessu frumvarpi og geri ráð fyrir því að það fari til viðskiptanefndar og fái þar umsögn aðila sem þekkja til málsins, bæði innan bankakerfisins og meðal eftirlitsstofnana. Ég hlakka til þess sem formaður viðskiptanefndar, að heyra þær umsagnir og ekki síst athugasemdir sem þessir aðilar gera við frumvarpið. Ég vænti þess að því verði tekið á jákvæðan hátt hjá flestum sem til þekkja.