138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

504. mál
[18:32]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur kærlega fyrir viðbrögðin. Þau gera það að verkum að maður hlýtur að vera mjög vongóður um að frumvarpið verði að lögum sem fyrst. Hv. þingmaður er þungavigtarþingmaður hér í þinginu og formaður hv. viðskiptanefndar og þangað fer málið og ég er sammála flestu ef ekki öllu því sem kom fram í máli hv. þingmanns.

Hv. þingmaður spurði mig af hverju ekki væri gert ráð fyrir breytingartillögu í lögunum sem við afgreiddum síðasta haust. Því er til að svara að fyrirmyndin er úr rannsóknarnefndarfrumvarpinu, það er ekkert leyndarmál og kemur hér fram. Það er form sem við höfum reynslu af. Við sáum hvernig það gekk fyrir sig. Ég held að reynslan af því sé að stærstum hluta góð og það verði mikið af upplýsingum sem við getum nýtt. Þetta er liðinn tími eins og sá tími sem rannsóknarnefndin kannaði og þó svo að þetta verkefni sé minna og afmarkaðra er það samt sem áður sérstakt verkefni sem mikilvægt er að ljúka eins og hv. þingmaður nefndi.

Svarið við spurningunni er því einfalt: Ég horfði sérstaklega til reynslunnar af rannsóknarnefndinni og rannsóknarskýrslunni. Sú eftirlitsnefnd sem nú er að störfum er, eftir því sem ég best veit, með fangið fullt af mjög stórum verkefnum. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að þetta verkefni vinnist sem hraðast, ég held að það sé ekki gott að hafa svona mál hangandi yfir neinum. Því fyrr sem við náum að klára þetta mál því betra og fyrirmyndin er komin úr rannsóknarnefnd Alþingis.