138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hvalveiðar hófust hér aftur eftir langt hlé árið 2003, vísindaveiðar og síðan fullar atvinnuveiðar sem segja má að hafi farið af stað af fullum krafti á síðasta ári.

Fyrir nokkrum dögum lagði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram nýtt frumvarp um hvalveiðar. Í ræðu minni um það frumvarp, þegar mælt var fyrir því, gerði ég ýmsar athugasemdir og taldi upp ýmsa annmarka á því.

Í fyrsta lagi, virðulegi forseti, þá var, eins og í svo mörgu öðru, ekkert samráð haft við hagsmunaaðila eða þá sem hafa stundað þessar veiðar í áratugi um gerð frumvarpsins heldur er það lagt fram í algerri óþökk og án þess undirbúnings sem þarf. Nefna má sérstaklega tvö atriði og það er t.d. tímabilið sem mönnum er ætlað að starfa eftir. Þarna á að fara að gefa út veiðileyfi til tveggja ára í senn en það sjá allir að fyrir þá sem standa í atvinnurekstri þar sem þeir hafa eingöngu sýn næstu tvö árin er ekki hægt að fjárfesta mikið en veiðar þessar eru dýrar og krefjast mikilla fjárfestinga bæði í landi og varðandi skip.

Það er sagt að frumvarpið taki gildi nú þegar þannig að þessi vertíð í sumar er í uppnámi ef frumvarpið fer í gegn á þessu þingi. Með frumvarpinu er greinilega verið að þóknast þeim fámenna hópi þingmanna og þeim fámenna hópi í samfélaginu sem er á móti hvalveiðum þrátt fyrir að engin rök þeirra hafi staðist í gegnum árin. Þær hafa ekki gengið eftir, allar þær bölsýnir sem hafa verið dregnar fram í dagsljósið.

Það hafa líka komið fram athugasemdir um lögmæti frumvarpsins og ég vil gjarnan vísa því til forseta að það verði kannað alveg sérstaklega hvort þingsköp hafi verið brotin með framlagningu þess.