138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Nú berast þær fréttir úr herbúðum ríkisstjórnarinnar að fyrir dyrum standi breytingar á skipulagi Stjórnarráðsins. Það á svo sem ekki að koma á óvart vegna þess að það var kynnt í stjórnarsáttmálanum. Samkvæmt fréttum er meiningin að leggja fram frumvarp og er ekki alveg einhugur um það innan ríkisstjórnarinnar hversu hratt þessar breytingar eiga að fara í gegn, og svo virðist sem líka sé meiningarmunur um það hvaða breytingar eigi að gera. Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni en við höfum mikið rætt vinnubrögð í þessum sal. Hv. þm. Oddný Harðardóttir var rétt í þessu að kveðja sér hljóðs um umræðuhefðina og hvernig við eigum að ræða saman í þingsalnum. Rannsóknarskýrslan bendir okkur á að það er margt sem við mættum betur gera frekar en að viðhafa það verklag sem hér hefur verið hingað til. Mér finnst það því skjóta skökku við þegar við erum að ræða um stórmál eins og breytingar á Stjórnarráðinu eru — og þetta er grundvallarspurning í okkar stjórnskipan — að það sé ekki einnar messu virði að allir fulltrúar á þingi, allir þingflokkar, allir stjórnmálaflokkar, væru kallaðir að þessu borði og mótuð yrði heildstæð stefna um það hvernig við vildum sjá þetta, alla vega taka umræðuna um þetta. Það er greinilegt að ágreiningur er um þessi mál. Helst hefur verið nefnd til andstaða Vinstri grænna við atvinnuvegaráðuneytið og sameiningu ráðuneyta. Ég hef ekki heyrt í þessum fréttaflutningi rætt um annað stórmál, sem er stofnun innanríkisráðuneyti, sem er þó ein forsenda þess að verið er að leggja niður Varnarmálastofnun og við erum að ræða það í annarri nefnd þingsins.

Ég vil gefa ríkisstjórninni þetta ráð: Tölum saman um þetta. Vinnum þannig að hægt sé að gera þetta af yfirvegun. (Forseti hringir.) Ekki reka fleyg í gegnum þjóðina eina ferðina enn með handahófskenndum vinnubrögðum.