138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir innlegg hennar og fyrir að vekja máls á þeirri umfjöllun sem er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um störf Alþingis. Mér finnst mikilvægt að við temjum okkur betri siði, ef svo má segja, bæði í þingsal og í þingstörfunum almennt. Ég hvet til þess að í forsætisnefnd verði vinna sett í gang við að endurskoða þingsköp sem ég veit reyndar að er í undirbúningi.

Ég vil líka, vegna orða hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, segja að mér finnst mjög eðlilegt að það álitamál sem hann vakti máls á verði tekið til umfjöllunar, m.a. á vettvangi viðskiptanefndar, og að sjálfsögðu er hægt að eiga orðastað um það líka við ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum, með skriflegum fyrirspurnum eða í utandagskrárumræðu ef þurfa þykir.

Hv. þm. Jón Gunnarsson vakti sérstaklega máls á hvalveiðunum. Um það vil ég einfaldlega segja að komið er fram frumvarp sem að sjálfsögðu mun fá eðlilega og þinglega meðferð í umræðu á vettvangi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Ég get líka upplýst að á fundi utanríkismálanefndar í fyrramálið verður fjallað um fundi í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Fulltrúi Íslands þar mun koma fyrir nefndina til að upplýsa um stöðu mála þar. Mín skoðun er sú að það sé óþarfi fyrir okkur Íslendinga yfirleitt að vera að eyða púðri í að stunda hvalveiðar og að þar séu minni hagsmunir teknir fram yfir meiri. En ég veit að um þetta eru ólík sjónarmið í samfélaginu og það er eðlilegt að þau brjótist fram hér í þingsal eins og annars staðar.

Varðandi endurskoðun Stjórnarráðsins, sem hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir nefndi, þá er það mál í ágætum farvegi. Það mun verða miklu betur vandað til þeirra verka af hálfu núverandi ríkisstjórnar en gert var vorið 2007 þegar keyrðar voru í gegn með miklu hraði breytingar á stjórnarskránni undir forustu Sjálfstæðisflokksins án þess að það fengi mikla efnislega umfjöllun eða haft væri um það samráð við aðra stjórnmálaflokka eins og nú er kallað eftir af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins.