138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það var tímabært að hv. þm. Oddný Harðardóttir skyldi kveðja sér hljóðs og tala fyrir öðrum og bættum vinnubrögðum á Alþingi og breyttum umræðuhefðum frá því sem hér hafa skapast. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að hér þarf ýmislegt að breytast og hér hefur ýmislegt breyst frá síðustu kosningum. Ég hef rekið mig á það eftir að ég tók sæti aftur á þingi fyrir skömmu eftir að hafa setið frá 2003 til 2007. Sú umræðuhefð sem tekin hefur verið á þinginu er að mörgu leyti þinginu ekki til sóma og henni má breyta. Þær breytingar mega hins vegar ekki fela í sér að í þingsalnum megi ekki ræða um mál sem eru óþægileg fyrir hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórnarflokka. Þingmenn eiga ekki að þurfa að sæta því frá stjórnarþingmönnum að vera uppnefndir fyrir að spyrja spurninga sem eru hæstv. ráðherrum ekki þóknanlegar.

Ég hef líka tekið eftir öðru og hef áhyggjur af þeim störfum sem ég hef horft upp á í nefndum þingsins á síðustu vikum. Ég kannast ekki við það að á umliðnum árum hafi nefndarformenn afgreitt ókláruð mál út úr nefndum en það er að gerast núna. Og ég tek eftir því að stjórnarmeirihlutinn hefur ekkert samráð í stórmálum við stjórnarandstöðuna.

Ýmislegt hefur breyst. Ég held hins vegar að vinnubrögðin hér á þingi hafi frá síðustu kosningum breyst til hins verra frá því sem var á árum áður og ég tel að vilji (Forseti hringir.) hv. stjórnarþingmenn breyta vinnubrögðum ættu þeir að byrja á því að taka til heima hjá sér áður en þeir halda umvöndunarræður (Forseti hringir.) yfir okkur hinum.