138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka fyrir þessa umræðu hér í dag og þá sérstaklega framlag hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur. Ég er ein af þessum nýju þingmönnum sem hef núna verið hér í heilt ár og ég bauð mig fram til þess að takast á við hin erfiðu verkefni sem við blöstu eftir bankahrunið. Ég verð að lýsa mig svolítið hissa á því, bæði miðað við umfjöllunina hjá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og eins það framlag sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom með áðan, að það skuli vandað um við okkur hin, en hins vegar gætir sérstaks brodds í sömu orðum um að þetta hafi bara ekkert verið skárra 2007.

Er það þá rétt? Varð ekki hér heilt hrun? Er það ekki það sem við ætluðum að læra af, er það ekki innleggið? Það er holur rómur í málflutningi þessara hv. stjórnarþingmanna.

Hér hafa bankar nú verið einkavæddir að nýju. Hvaða flokkar gerðu það, voru það ekki núverandi stjórnarflokkar? Og hvernig vinnubrögð voru viðhöfð við þá framkvæmd? Er eitthvað nýtt í því eða var það kannski bara gert á svipaðan hátt og áður?

Varðandi lýðræðislegu vinnubrögðin vísa ég enn og aftur til þeirrar meðferðar sem náttúruverndaráætlunin fékk í þinginu í fyrrasumar. Ég vísa til þess að hér hefur verið boðað til fundar í félagsmálanefnd í dag með tölvupósti sem var sendur út seinni partinn í gær. Fundurinn á að standa frá klukkan fimm til a.m.k. klukkan tíu, sýnist mér, (Gripið fram í.) og ég get ekki séð að þetta sé mjög fjölskylduvænt fyrir fólk sem á lítil börn.

Ég verð einfaldlega að segja að hv. þingmenn stjórnarliðsins ættu bara að hætta að tala í þessum ræðustól um hvað við ættum að hætta að tala mikið, eins og hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar leggur helst til, og fara heldur að taka til, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson lagði til, og hætta bara að tala og fara að gera eitthvað af viti.