138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það sannaðist í þessari umræðu að með þessu hvalafrumvarpi er verið að þóknast mjög fámennum hópi þingmanna. Það kom greinilega fram hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur. Þau sögðu að það væri einfaldlega óþarfi að stunda hvalveiðar og nú án þess að færa fyrir því nein rök. Öll þau rök sem hafa verið lögð á borðið af andstæðingum hvalveiða hér á undanförnum mörgum árum hafa hrunið. Hér átti allt að fara fjandans til í ferðaþjónustu, hér átti hvalaskoðun að leggjast af, en aldrei hefur orðið annar eins vöxtur í þeim greinum síðan við hófum hvalveiðar hérna 2003. Hann hefur verið stöðugur og góður. Þessu höfum við hvalveiðisinnar haldið fram, að þessar greinar gætu starfað vel saman, og þannig er það.

Það er ekki óþarfi að stunda hér hvalveiðar, hv. þingmenn, það er mjög nauðsynlegt til að gæta samræmis í lífríkinu þó að ekki sé annað. Við göngum heldur ekki á neina stofna umfram það sem vísindaleg ráðgjöf gefur tilefni til. Það er ekki bara ráðgjöf íslenskra vísindamanna, það er ráðgjöf erlendra vísindamanna. Stofnstærðir o.fl. sem er lagt þar til grundvallar er viðurkennt af alþjóðavísindamannasamfélaginu í þessum efnum, m.a. Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Það er alveg magnað hvað þessari hæstv. ríkisstjórn ætlar að takast að leggja mikinn stein í götu atvinnulífs á Íslandi. Hér er enn eitt dæmið um það hvernig þessi ríkisstjórn starfar. Það er ekki nema von að hæstv. fjármálaráðherra dæsi í ræðustól þingsins og færi þingi og þjóð þau skilaboð að hann sé svo þreyttur af því að brekkurnar séu svo miklar. Það er erfitt að vinna skemmdarverk og standa í þeirri gagnrýni sem það hlýtur í samfélaginu alla daga. Ég er ekkert hissa á þreytu hæstv. fjármálaráðherra í þeim efnum þegar kemur að öllum þeim innanborðsátökum sem hann á í í ríkisstjórninni og á svo í við samfélagið um þessar ákvarðanir eða þær ekki-ákvarðanir sem eru teknar. Ég held að við ættum að taka norska þingið okkur til fyrirmyndar þar sem þverpólitísk samstaða hefur verið síðan 1992 (Forseti hringir.) um rétt þjóðarinnar til að nýta þessa stofna. (Forseti hringir.)

Svo ítreka ég beiðni mína til forseta þingsins um að lögmæti þessa frumvarps verði skoðað út frá þingskapalögum.