138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

umræður á þingi -- skaðabætur vegna bankahruns -- hvalveiðar o.fl.

[14:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er eins og svo oft áður að þessi liður, Störf þingsins, fer út og suður og ég hvet hv. forsætisnefnd og hæstv. forseta til að gera nú alvöru úr því ásamt okkur þingflokksformönnum að reyna að koma örlítið betri skikk á hann vegna þess að hér hafa mörg mál verið rædd.

Mig langar til að koma hér í annað sinn vegna sama máls og ég vakti máls á áður og það eru fyrirhugaðar breytingar á Stjórnarráðinu. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur vegna orða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að þrátt fyrir brýningu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur datt viðkomandi þingmaður strax í þann pytt að segja: Þetta er nú miklu betra en þegar þið gerðuð þetta árið 2007.

Erum við ekki komin upp úr þessu? Er það ekki nákvæmlega þetta sem búið er að gagnrýna og við eigum öll að læra? Eigum við ekki að meðtaka það að staðreyndir málsins eru þessar: Breytingar á Stjórnarráði Íslands eru stórmál. Breytingar á Stjórnarráði Íslands eru hlutir sem við höfum og eigum öll að hafa skoðanir á. Ég hugsa að skoðanir okkar í stjórnarandstöðunni séu í þessu tilfelli alveg jafnréttháar skoðunum stjórnarflokkanna. Þegar við erum að fara í slíkar breytingar á að gera þær með heildarhagsmuni og heildarsýn að leiðarljósi en ekki út frá einhverjum ESB-forsendum, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson benti á hér áðan. Það lítur út fyrir að það sé verið að keyra þetta í gegn vegna þeirra, menn geta haft á því skoðun.

En vöndum okkur. Það er lærdómurinn sem við eigum að draga af rannsóknarskýrslunni. Vöndum vinnubrögðin, vinnum saman að stórum málum. Við sjáum að þetta er hægt. Við sjáum að undir forustu núverandi borgarstjóra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur er þetta gert á hverjum einasta degi í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er farið í erfið mál (Forseti hringir.) eins og fjárhagsáætlun þannig að það er hlustað og það er unnið þverpólitískt. Tökum það okkur til fyrirmyndar.