138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

almenn hegningarlög.

547. mál
[14:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Helgi Hjörvar hafi vakið máls á afar athyglisverðu og mikilvægu máli. Ég held að það þingmál sem hann flytur, þetta frumvarp, gefi tilefni til vandaðrar skoðunar. Þrátt fyrir að vissulega sé þarna um að ræða nokkur frávik frá því sem viðgengist hefur í réttarvörslukerfi okkar, ef svo má að orði komast, held ég að reynslan geti sýnt okkur að tilefni sé til að skoða af fullri alvöru að taka upp úrræði af þessu tagi.

Við stöndum frammi fyrir því að hér á landi, og í flestum þeim löndum sem við að jafnaði berum okkur saman við, er forsenda þess að hægt sé að beita refsingu eða refsikenndum viðurlögum sú að sekt teljist sönnuð eftir leikreglum sakamálaréttarfarsins. Við þekkjum dæmi þess og höfum séð það, bæði hér á landi og annars staðar, að aðstæður eru með einhverjum þeim hætti að ekki eru forsendur, á grundvelli þeirra ströngu reglna sem gilda í sakamálaréttarfarinu, til að krefjast sakfellingar í skilningi refsiréttarins en engu að síður allt útlit fyrir að um sé að ræða ólögmætan ávinning vegna starfsemi sem fer með einhverjum hætti í bága við lög, oft þvert gegn gildandi lögum. Það er að mínu mati fullkomlega eðlilegt að það sé skoðað hvernig hægt er að færa reglu af þessu tagi, sem hv. þingmaður er að leggja til inn í okkar refsilöggjöf, með þeim formerkjum sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni um að þess þarf að gæta að fyrir liggi sannanir um að ávinningurinn stafi af ólögmætri hegðun og að um einhvers konar ólögmæta auðgun sé að ræða. Síðan þarf að skoða hvernig best er að haga réttarfarsreglum í kringum málsmeðferð og annað þess háttar til að tryggja grundvallarsjónarmið réttarríkisins.

Á síðasta ári breyttum við almennum hegningarlögum með þeim hætti að nú er heimilt að dæma upptöku eigna í fleiri tilvikum en áður. Eftir sem áður er það skilyrði að um sé að ræða sakfellingu. Það er hins vegar ekki skilyrði beinlínis að ákæruvaldið sýni fram á að þær eignir sem gerðar eru upptækar séu beinn ávinningur af þeirri tilteknu brotastarfsemi sem dæmt er fyrir. Þarna er skilyrðið það að sakfelling eigi sér stað þannig að um er að ræða nokkuð aðrar aðstæður en rætt er um í frumvarpinu. En það þarf með einhverjum hætti að skoða hvernig þessi atriði fara saman. Í báðum tilvikum er hins vegar um að ræða það grundvallarsjónarmið að þeir sem með ólögmætum hætti auðgast á annarra kostnað geti ekki haldið þeim ávinningi og þar með í rauninni grætt á glæpnum ef svo má að orði komast. Við hv. þm. Helgi Hjörvar erum fullkomlega sammála um að löggjöf okkar verður að vera þannig úr garði gerð að það sé klárt að afbrot borgi sig ekki.

Ég held að hv. þingmaður hafi vakið athygli á máli sem við þurfum að skoða og ég held að það sé mikilvægt að skoða þetta á vettvangi allsherjarnefndar, m.a. að líta á það hvernig þjóðirnar í kringum okkur hafa innleitt ákvæði af þessu tagi í löggjöf sína til að sjá hvernig hentugast er að gera það hér. Ég held að við getum öll verið sammála um að það er afar mikilvægt að löggjöfin sé þannig að þeir sem stunda ólögmæta starfsemi í einni eða annarri mynd og hafa af því ávinning njóti þess ekki; að það sé í rauninni réttlæti sem fylgi því að ólögmæt starfsemi skili ekki ávinningi. En ég undirstrika enn og aftur að þetta þarf að gera með skýrum hætti þannig að þær reglur sem um þetta verða settar séu framkvæmanlegar og tryggi að fyllsta réttaröryggis sé gætt og að ekki sé um að ræða tilviljunarkenndar eða geðþóttakenndar ákvarðanir heldur niðurstöður sem byggja á góðum og skýrum sönnunum fyrir því að um ólögmæta hegðun sé að ræða og að ávinningurinn af henni sé þar með með röngu kominn í hendur þess sem í hlut á.